Fimmti sigur toppliðsins í röð

Alexandra Petersen, leikmaður Vals, reynir að komast framhjá Danielle Rodriguez, ...
Alexandra Petersen, leikmaður Vals, reynir að komast framhjá Danielle Rodriguez, leikmanni Stjörnunnar, í leik liðanna í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Valur vann sinn fimmta leik í röð í Dominos-deild kvenna í körfubolta er toppliðið lagði leið sína í Garðabæinn og lagði Stjörnuna 65:51.

Stjarnan skoraði fyrstu þrjú stig leiksins, en þá svaraði Valur með næstu níu stigum og náði sex stiga, 9:6. Stjarnan svaraði vel og náði að jafna í 12:12, en Valskonur skoruðu síðustu körfu 1. leikhlutans og komst í 14:12 í leikhluta þar sem varnarleikurinn var mun betri en sóknarleikurinn. Bandarísku leikmenn liðanna skoruðu samtals tvö stig í leikhlutanum, þau gerði Danielle Rodrguez hjá Stjörnunni.

Valskonur byrjuðu 2. leikhluta betur og unnu fyrri hluta hans 7:3. Þá tók Stjarnan við sér og sérstaklega Bríet Sif Hinriksdóttir, því hún skoraði tvær þriggja stiga körfur undir lok leikhlutans og jafnaði í 29:29. Þannig var staðan í hálfleik.

Valur var sterkari aðilinn í 3. leikhluta og var staðan fyrir síðasta leikhlutann 45:39. Valur skoraði fyrstu 13 stig 4. leikhlutans og breytti stöðunni í 58:39. Stjarnan náði ekki að svara því og að lokum var sigur Vals nokkuð öruggur. 

Stjarnan 51:65 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is