Ætlum að stöðva sigurgöngu Hauka

Sigtryggur Arnar Björnsson.
Sigtryggur Arnar Björnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það mun mæða mikið á bakverðinum Sigtryggi Arnari Björnssyni í liði Tindastóls þegar liðið mætir Haukum í undanúrslitum Maltbikarsins í körfuknattleik í Laugardalshöllinni í kvöld.

Sigtryggur Arnar er í stóru hlutverki hjá Stólunum og er þeirra stigahæsti leikmaður á tímabilinu en hann hefur skorað 19,5 stig að meðaltali í leik.

„Ég er alveg viss um þetta verður hörkuleikur á móti Haukunum. Þeir hafa verið á sigurbraut undanfarnar vikur en nú er það okkar að stöðva þessa sigurgöngu,“ sagði Sigtryggur Arnar við mbl.is en hann er 24 ára gamall landsliðsmaður sem kom til Tindastóls frá Skallagrími í Borgarnesi fyrir tímabilið.

„Það er mikill hugur í okkur. Við vitum að Tindastóll hefur aldrei unnið bikarmeistaratitilinn svo það er kominn tími á það. Við erum klárlega með lið til að fara alla leið í bikarnum og nú þurfum við allir sem einn að leggja allt í sölurnar. Haukarnir eru með góða leikmenn í öllum stöðum svo við þurfum að ná fram toppleik til að vinna þá. Haukarnir eru með eitt af bestu liðunum á landinu í dag. Ég veit að við munum fá góðan stuðning frá okkar flottu stuðningsmönnum. Sjálfur hef ég aldrei spilað bikarúrslitaleik og það yrði gaman ef það tækist í ár,“ sagði Sigtryggur Arnar.

Sigtryggur er uppalinn í Breiðabliki og hans gamla lið á erfitt verkefni fyrir höndum en það mætir Íslands- og bikarmeisturum KR í hinum undanúrslitaleiknum.

„Það eru ansi miklar líkur á að KR fari í úrslitaleikinn en vonandi nær mitt gamla lið að stríða KR-ingum. Ég held með því í þessum leik.“

Benedikt Guðmundsson, körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, spáir í spilin í undanúrslitum Maltbikarsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert