Getur brugðið til beggja vona

Kristófer Acox sækir að körfu Breiðabliks í dag.
Kristófer Acox sækir að körfu Breiðabliks í dag. mbl.is/Hari

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, var að vonum sáttur eftir 90:71 sigur á Breiðablik í undanúrslitum Malt-bikars karla í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag. Þótt sigurinn hafi að lokum verið sanngjarn tókst KR-ingum lengst af ekki að slíta sig frá baráttuglöðu 1. deildarliði Blika og viðurkenndi Brynjar að það væri erfitt að spila svona leiki.

„Þeir verða uppfullir af orku þegar þeir, 1. deildarliðið, mæta okkur og þetta er sennilega þeirra stærsti leikur á tímabilinu. Það er mjög erfitt að spila þessa leiki, það er allt önnur orka í þessu en í venjulegum deildarleik og ég tala nú ekki um þegar lið hefur allt að vinna. Stuðningsmenn þeirra fagna öllum skotum eins og þeir eigi varla að hitta og það gerir þetta auðvitað að skemmtilegum en að sama skapi mjög erfiðum leikjum.“

Pressan var öll á Íslands- og bikarmeisturum KR sem stefna á að vinna sinn þriðja bikarmeistaratitil í röð en Brynjar segir liðið vera of reynslumikið til að láta það á sig fá.

„Auðvitað hugsar maður til þess að ef við lendum í einhverju rugli og þeir fara að hitta úr einhverjum rosalegum skotum að þá gæti þetta orðið spennandi. Reynslan og allt það gerir okkur kleift að vera rólegir í svona stöðum við vitum alveg hvað við getum en það getur alltaf brugðið til beggja vona í svona bikarleikjum. Það þarf ekki nema nokkur skot eða nokkra tapaða bolta og þá getur allt farið á versta veg.“

Það er fullstutt í úrslitaleikinn

Eftir nokkuð slitrótta byrjun á mótinu hafa KR-ingar náð að rétta skútuna af. Liðið leikur til úrslita í bikarnum fjórða árið í röð og hefur unnið síðustu sex deildarleiki sína. Brynjar segir ekki langt í að KR finni sitt gamla form en finnst þó vera fullstutt í úrslitaleikinn.

„Það er ekki spurning, þetta er allt að smella saman en það er langt í land enn þá. Eins og staðan er á liðinu í dag, hún er ekki alveg eins og hún á að vera en við erum að fá alla leikmenn inn. Það er komin breidd í hópinn og það gerir það að verkum að fleiri leikmenn geta gefið til liðsins. Það mun gera okkur gott þegar líður á tímabilið en mér finnst svona fullstutt í úrslitaleikinn á meðan við erum að fá alla til baka.“

Haukar og Tindastóll mætast í síðari undanúrslitaviðureigninni í kvöld og telur Brynjar að bikarmeistararnir verði lítilmagnarnir í úrslitaleiknum, sama hverjum þeir mæta.

„Þetta eru bæði frábær lið sem gerir það að verkum að leikurinn verður alveg gríðarlega spennandi og skemmtilegur. Það er enginn sigurstranglegri í þessum leikjum, að mínu mati erum við hálfgerðir „underdogs“ í þessum leikjum þó að við höfum unnið bikarinn síðustu tvö ár, það skiptir engu máli. Við erum ekki búnir að spila nógu vel, erum að fá leikmenn til baka og þar af leiðandi finnst mér öll pressan vera á Tindastóli eða Haukum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert