KR í úrslit fjórða árið í röð

Sigurður Þorvaldsson reynir að stöðva Árna Elmar Hrafnsson í undanúrslitaleiknum.
Sigurður Þorvaldsson reynir að stöðva Árna Elmar Hrafnsson í undanúrslitaleiknum. mbl.is/Hari

KR er komið í úrslitaleik Maltbikarsins, fjórða árið í röð, eftir sanngjarnan 90:71 sigur á 1. deildar liði Breiðabliks í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í dag.

Um var að ræða fyrsta undanúrslitaleik Breiðabliks í Laugardalshöllinni og var smá skrekkur í leikmönnum liðsins í upphafi. Einvígið virtist ætla fara eftir bókinni í fyrsta leikhluta en Blikum gekk afar illa að setja niður skotin sín. Landsliðsmaðurinn Kristófer Acox fór vel af stað í liði KR sem var 16 stigum yfir snemma í öðrum leikhluta.

Jeremy Herbert Smith tók þá leikinn í sínar hendur fyrir Blika og þeir bitu hressilega frá sér. Smith var með ein 16 stig í fyrri hálfleik er Blikum tókst að minnka muninn niður í átta stig en staðan var 47:39 í hálfleik, KR-ingum í vil.

Ungir og efnilegir leikmenn Breiðabliks sýndu margrómuðum meisturum KR enga virðingu og sýndu mikla baráttu allan leikinn. KR-ingar höfðu yfirhöndina á nær öllum stundum en lengi vel tókst þeim ekki að slíta sig frá grimmum Blikum. Munurinn var um 10 stig allt fram að fjórða og síðasta leikhlutanum er gæði og styrkur KR liðsins bar loks af.

Pavel Ermolinskij átti frábæran leik fyrir KR en hann tók 12 fráköst og átti 13 stoðsendingar á meðan Kristófer var stigahæstur með 18 stig. Jeremy Smith átti stórleik fyrir Blika og skoraði ein 29 stig en það dugði ekki til og unnu KR-ingum tókst loks að ná upp góðri forystu sem þeir misstu ekki niður. Sanngjarn en torsóttur sigur meistaranna sem mæta annað hvort Haukum eða Tindastól í úrslitaleiknum á laugardaginn kemur.

Gangur leiksins: 6:1, 9:5, 18:7, 22:12, 34:16, 36:26, 44:34, 47:39, 49:41, 54:45, 57:50, 65:54, 70:61, 77:64, 86:66, 90:71.

KR: Kristófer Acox 18/11 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 16/5 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 13/6 fráköst, Darri Hilmarsson 12, Jalen Jenkins 9/9 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 7, Björn Kristjánsson 5, Pavel Ermolinskij 5/12 fráköst/13 stoðsendingar, Zaccery Alen Carter 3, Andrés Ísak Hlynsson 2.

Fráköst: 30 í vörn, 12 í sókn.

Breiðablik: Jeremy Herbert Smith 29/4 fráköst, Snorri Vignisson 14/15 fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 14, Halldór Halldórsson 4/7 fráköst, Sveinbjörn Jóhannesson 3, Erlendur Ágúst Stefánsson 3, Leifur Steinn Arnason 2, Brynjar Karl Ævarsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón Guðmundsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 1100

Breiðablik 71:90 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert