Löngu kominn tími á að vinna bikarinn

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Árni Sæberg

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var leikmaður liðsins þegar Haukarnir urðu síðast bikarmeistarar í körfuknattleik. Það var fyrir 22 árum en Haukar etja kappi við Tindastól í undanúrslitum Maltbikarsins í Laugardalshöllinni í kvöld.

„Það er löngu kominn tími á vinna bikarinn og það er mikil spenna í Hafnarfirði. Það er gaman að vera kominn í undanúrslitin og vonandi tekst okkur að fara alla leið,“ sagði Ívar Ásgrímsson en Haukarnir hafa verið á mikilli siglingu undir hans stjórn, hafa unnið átta leiki í röð í Dominos-deildinni og deila efsta sætinu með KR og ÍR.

„Við erum með allt með okkur og nú þurfa strákarnir bara að gefa allt í þetta og ef þeir gera það þá getum við farið langt. Í undanúrslitum í bikarnum áttu að búast við því að mæta sterkum andstæðingi og við fengum það svo sannarlega. Tindastóls-liðið er virkilega gott og rimmur okkar við Stólana í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar undanfarin ár hafa verið frábærar. Þetta eru alltaf skemmtilegir leikir og frábærir stuðningsmenn hjá báðum félögum. Þetta verður því bara stuð og stemning,“ sagði Ívar.

„Ég myndi telja það stórslys ef KR fer ekki í úrslitaleikinn með fullri virðingu fyrir Breiðabliki. KR er allt of sterkt til að tapa fyrir Blikunum. Ég held að KR komist auðveldlega í úrslitaleikinn og vonandi mætum við þeim þar. KR er það lið sem allir vilja vinna en við þurfum að byrja á því að hugsa um leikinn við Tindastól.“

Benedikt Guðmundsson, körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, spáir í spilin í undanúrslitum Maltbikarsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert