„Þetta er ljúfsárt“

Lárus Jónsson.
Lárus Jónsson. mbl.is/Hari

Hún var súrsæt, tilfinningin, sem Lárus Jónsson, þjálfari Breiðabliks, upplifði eftir 90:71 tap gegn KR í undanúrslitum Maltbikars karla í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag.

Blikar eru í 1. deildinni og voru að spila aðeins sinn annan undanúrslitaleik í sögu félagsins og það gegn ríkjandi Íslands- og bikarmeisturunum en þrátt fyrir það var spilamennskan oft á tíðum til fyrirmyndar. Lárus var auðvitað stoltur af framlagi sinna manna en sömuleiðis svekktur með úrslitin.

„Þetta er ljúfsárt. Ég er mjög stoltur af strákunum, þeir lögðu sig alla fram, en að sama skapi er ég smá svekktur. Það eru smá atriði sem við klikkuðum á, sem við fórum vel yfir fyrir leikinn. KR fær mikið af ódýrum körfum, eins og úr innköstum, og við hefðum geta lagað það.“

„Þannig vinnur KR yfirleitt leiki, þeir halda pressu á þér allan tímann og bíða eftir að þú gerir mistök. Um leið og þú gerir þau, þá refsa þeir. Ég er ánægður með að við náðum yfirleitt að koma í veg fyrir hraðaupphlaupin þeirra en til að eiga séns hefðum við hreinlega þurft að hitta óaðfinnanlega, því miður var það ekki raunin.“

Lárus segir það geta verið gífurlega gott veganesti fyrir framhaldið hjá sínum leikmönnum að hafa spilað svo vel gegn mörgum af bestu körfuboltamönnum landsins.

„Ég held að strákarnir hafi grætt mikið á þessum leik, þetta sýnir þeim að þeir geta spilað á móti bestu leikmönnum landsins þannig að þetta var vonandi bara gott fyrir sjálfstraust þeirra.“

„Ég held að þetta geti vísað strákunum aðeins veginn. Þeir sáu að þeir geta keppt við bestu leikmenn landsins og sjá þá vonandi að ef þeir leggja enn þá meira á sig, þá geta þeir jafnvel farið að keppa við þá hjá landsliðinu og svo framvegis,“ sagði Lárus að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert