Án deildarsigurs í bikarúrslitum

Botnlið Njarðvíkur gerði sér lítið fyrir og vann glæsilegan 78:75-sigur á Skallagrími í undanúrslitum Maltbikars kvenna í körfubolta í dag. Njarðvík hefur tapað 15 leikjum í Dominos-deildinni og ekki unnið einn einasta. Þrátt fyrir það er Skallagrímur þriðja liðið sem Njarðvík slær út í bikarkeppninni. 

Njarðvík fór vel af stað og var yfir fyrri hluta 1. leikhluta. Staðan var 15:10, Njarðvík í vil, þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Skallagrímur var hins vegar mun sterkari aðilinn síðustu þrjár mínúturnar og var staðan því 26:21, Skallagrími í vil, fyrir 2. leikhluta.

2. leikhluti var jafn allan tímann og skiptust liðin á að skora. Njarðvíkingar réðu afar illa við Zimora Esket, nýjan leikmann Skallagríms. Hún er gríðarlega stór og sterk og gat hún nánast skorað að vild undir körfunni. Þrátt fyrir það var Njarðvík enn með í leiknum þegar flautað var til hálfleiks. Staðan að loknum fyrri hálfleik, 46:39.

Njarðvík var ekki á þeim buxunum að gefast upp og góð byrjun á seinni hálfleik gerði það að verkum að staðan var 51:51 þegar 3. leikhluti var hálfnaður. Eftir það skiptust liðin á að vera með forystuna það sem eftir lifði leikhlutans og var staðan 60:58, Skallagrími í vil, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Njarðvík var yfir nánast allan leikhlutann en Skallagrímur var aldrei langt undan og voru síðustu mínúturnar æsispennandi. Staðan var 78:74, Njarðvík í vil, þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Skallagrímur náði ekki að jafna leikinn eftir það og óvæntur sigur Njarðvíkinga varð raunin.  

Skallagrímur 75:78 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert