Draumurinn er að fara alla leið í ár

Guðrún Ósk Ámundadóttir með boltann.
Guðrún Ósk Ámundadóttir með boltann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skallagrímur á möguleika á að leika til úrslita í bikarkeppni kvenna í körfuknattleik annað árið í röð en Skallagrímur mætir Njarðvík í fyrri undanúrslitaleiknum í Maltbikarnum í Laugardalshöllinni í dag.

Skallagrímur beið lægri hlut fyrir Keflavík í úrslitum í fyrra en það er í fyrsta og eina sinn sem Skallagrímur hefur komist í úrslitin. Njarðvík hefur einni sinni hampað bikarmeistaratitlinum en það var árið 2012 en liðið hefur leikið til úrslita fjórum sinnum.

Skallagrímur er í 6.sæti Dominos-deildarinnar með 14 stig en Njarðvík er án stiga og hefur tapað öllum 15 leikjum sínum en á leið sinni í undanúrslitin sló Njarðvík lið Stjörnunnar og Breiðabliks út.

„Við búum okkur undir hörkuleik. Staða liða í deildinni telur ekkert í svona leik og það er ekkert vanmat í gangi hjá okkur gagnvart Njarðvík þótt liðið hafi ekki unnið leik í deildinni. Við mættum þeim í deildinni um síðustu helgi og það var hörkuleikur. Ég reikna með að það sama verði upp á teningnum í þessum leik,“ sagði Guðrún Ósk Ámundadóttir, fyrirliði Skallagríms, við mbl.is.

„Okkur langar mikið til að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar við fórum í úrslitaleikinn og draumurinn er að fara alla leið í ár og að fá að lyfta bikar með heimaliði sínu. Stemningin í Höllinni var geggjuð í fyrra og ég vona að Borgnesingar fjölmenni á leikinn og að stemningin verði eins,“ sagði Guðrún Ósk sem sneri aftur til Skallagríms frá Haukum fyrir tveimur árum.

Um viðureign Keflavíkur og Snæfells sagði Guðrún Ósk:

„Ég á von á hörkuleik. Snæfell kann alveg að vinna leiki eins og þennan. Það yrði gaman að fá að mæta Keflavíkur aftur í úrslitum og ná þar með að hefna ófaranna frá því í fyrra en það yrði líka virkilega gaman að fá vesturlandsslag í úrslitunum.“

Benedikt Guðmundsson, körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, spáir í spilin fyrir leikina í undanúrslitum Maltbikarsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert