Ætti að vera vonsvikin og svekkt

Shalonda Winton sækir í átt að körfu Keflavíkur.
Shalonda Winton sækir í átt að körfu Keflavíkur. mbl.is/Hari

„Ég veit að ég ætti að vera vonsvikin og svekkt en mér fannst við gefa út yfirlýsingu með þessari frammistöðu,“ sagði Shalonda Winton, leikmaður Njarðvíkur, eftir 74:63 tap gegn Keflavík í úrslitaleik Maltbikars kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag.

Ótrúlegt gengi Njarðvíkur í bikarnum endaði með tapi en liðið sló út þrjú úrvalsdeildarlið á leið sinni í úrslitaleikinn þrátt fyrir að vera enn án sigurs í deildinni sjálfri eftir 15 umferðir.

„Þótt við höfum enga sigra enn þá í deildinni þá ætlum við að sækja nokkra núna, við erum með gott lið og getum keppt við alla. Keflavík er topplið og við erum á botninum og auðvitað er ég ekki ánægð að tapa en við gáfum allt í þetta og getum verið stoltar.“

Winton segir sitt lið hafa spilað vel en gert nokkur minni háttar mistök sem reyndust afdrifarík. Sjálf átti hún frábæran leik, skoraði 37 stig og átti 23 fráköst, en hún segist þó hafa átt að gera betur í ákveðnum atriðum.

„Við hefðum átt að hitta úr fleiri skotum, ég persónulega tapaði líka nokkrum boltum og hefði kannski átt að koma samherjum mínum aðeins meira inn í leikinn. Eftir leik er auðvelt að hugsa til baka og segja ef og hefði en við spiluðum vel. Þjálfarinn gaf okkur gott leikskipulag og við vorum einbeittar en kannski kostaði fjórði leikhlutinn okkur aðeins of mikið.“

„Þetta voru litlir hlutir sem voru að klikka hjá okkur en stundum eru það litlu hlutirnir sem kosta þig.“

Þrátt fyrir að hafa orðið undir í þessu einvígi var engan bilbug á Winton að finna og segir hún að frammistaðan gegn jafngóðu liði og Keflavík muni gefa Njarðvíkingum byr undir báða vængi á lokasprettinum í deildinni.

„Keflavík er topplið og þessi frammistaða mun vera okkur hvatning. Það er spennandi að sjá hvað við getum gert þegar við einbeitum okkur að verkefninu og fylgjum leikskipulagi þjálfarans,“ sagði hún að endingu.

mbl.is