Hreinlega slátruðum þeim

Sigtryggur Arnar í baráttunni í dag.
Sigtryggur Arnar í baráttunni í dag. mbl.is/Hari

„Mér líður ótrúlega vel, þetta er geggjað,“ var það fyrsta sem Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, sagði í samtali við mbl.is eftir 96:69-stórsigur liðsins á KR í bikarúrslitaleik í Laugardalshöll í dag. Tindastóls skoraði fyrstu 14 stig leiksins og var með mikla yfirburði. 

„Við spiluðum fáránlega góða vörn, liðsheildin var geggjuð og við hittum ótrúlega vel. Við komum tilbúnir í þennan leik og gerðum það sem við ætluðum að gera og hreinlega slátruðum þeim.“

Sigtryggur kom gríðarlega sterkur til leiks og skoraði níu stig í upphafi leiks. Hann fékk hins vegar líka þrjár villur og var því mikið á bekknum. 

„Þetta voru einhverjar klaufavillur, ég var ofpeppaður, en mér er alveg sama. Strákarnir stigu upp og voru góðir í vörn og sókn. Ég hafði engar áhyggjur.“

Hann var gríðarlega ánægður með stuðninginn sem Tindastóll fékk í dag. 

„Það er ótrúlegt. Laugardalshöllin er troðfull og ég hef aldrei séð það áður. Við erum þakklátir fyrir stuðningsmennina, þeir voru sjötti maðurinn og skiptu ótrúlega miklu máli.“

Sigtryggur Arnar kveðst sáttur við sinn hlut í undanúrslitum og úrslitunum sem spiluð voru um helgina. 

„Ég held það, ég held það bara, ég átti fína leiki,“ sagði hann léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert