Martin fór á kostum en lið hans tapaði

Martin Hermannsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í körfubolta.
Martin Hermannsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í körfubolta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Martin Hermannsson bætti persónulegt met sitt yfir stigaskor á yfirstandandi leiktíð þegar hann skoraði 29 stig í 90:84-tapi Chalons-Reims gegn Le Mans í frönsku efstu deildinni í körfubolta karla í kvöld.

Martin lék allar 40 mínúturnar með liði sínu og átti 7 stoðsendingar auk þess sem hann tók tvö fráköst.

Haukur Helgi Pálsson skoraði hins vegar fjögur stig þegar lið hans, Cholet, hafði betur á móti Pau Orthez á útivelli. Hann spilaði í 23 mínútur. Lokatölur í leiknum urðu 78:70 Cholet í vil. 

Cholet er í níunda sæti deildarinnar með átta sigurleiki og jafnmarga tapleiki. Chalons-Reims er hins vegar í 12. sæti deildarinnar eftir sjö sigra og níu töp.  

Á Spáni skoraði Tryggvi Snær Hlinason 3 stig fyrir Valencia og tók 2 fráköst í stórsigri liðsins á Zaragoza, 103:58.

Í B-deild kvenna á Spáni var Hildur Björg Kjartansdóttir með 9 stig og 11 fráköst í útisigri Leganés gegn Picken Claret, 61:43.

mbl.is