Slitum okkur frá þeim með þolinmæði

Sverrir Þór Sverrisson fagnar lokaflautinu af innlifun.
Sverrir Þór Sverrisson fagnar lokaflautinu af innlifun. mbl.is/Hari

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var að vonum kampakátur eftir að lið hans landaði sínum 15. bikarmeistaratitli og þeim öðrum í röð með 74:63 sigri á Njarðvík í úrslitaleik Maltbikars kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag.

„Þetta er frábært, við bjuggumst við að þetta yrði svona leikur, mikil harka og jafnræði. Við vissum að það myndi taka dálítinn tíma að slíta okkur frá þeim en við gerðum það með mikilli þolinmæði.“

Meiðsli og veikindi hafa herjað á leikmannahóp Keflavíkur undanfarið. Þær Þór­anna Kika Hod­ge-Carr og Emelía Ósk Gunnarsdóttir slitu báðar krossband ásamt því að megnið af leikmannahópnum og Sverrir sjálfur lágu fyrir með flensu í byrjun vikunnar. Hann sagði þó hópinn hafa tekið ákvörðun um það að láta þessi áföll ekki hafa nein áhrif á bikarvikuna.

„Nei, við ákváðum það strax. Ég var einn af þeim sem lá lengst frá en ég sagði það að við verðum 12 í búning í þessum leikjum og förum fullt í þetta, það verða engar helvítis afsakanir. Þetta eru hlutir sem er ekki hægt að stjórna, bæði þessi meiðsli og veikindi. Það var bara að mæta af krafti og gera okkar besta.“

Embla Kristínardóttir gekk til liðs við Keflavík fyrir jól og átti stórleik í dag. Sverrir segir hæstánægður með innkomu hennar og að hann hafi viljað fá hana fyrr til félagsins.

„Það var bara frábært, ég vildi fá hana fyrir tímabilið í fyrra en þá var hún samningsbundin í Grindavík og vildi klára samninginn sinn. Svo losnar hún núna og kom til okkar á frábærum tíma.“

Stormviðri geisaði á landinu þegar leikið var til undanúrslita og mættu heldur fáir Keflvíkingar á undanúrslitaleikinn gegn Snæfelli en Sverrir kallaði eftir betri mætingu og meiri stemningu í dag. Hann var ánægður með stuðninginn í dag og hrósaði stuðningsmönnum beggja liða.

„Þeir voru frábærir. Njarðvíkingar líka, ég þekki þá vel og þjálfaði þar áður og stuðningsmenn báðum megin voru frábærir. Þeir, ásamt liðunum, gerðu þetta að frábærum körfuboltaleik.“

Keflavík varð auðvitað bæði Íslands- og bikarmeistari í fyrra og segir Sverri athyglina nú beinast að deildinni.

„Liðið er svolítið breytt núna, við erum að slípa okkur betur saman og hlutverkaskipting hefur breyst aðeins. Við þurfum að koma því vel inn og halda áfram að reyna að safna stigum í deildinni. Svo verðum við vonandi inni í úrslitakeppninni og þá skoðum við þetta betur en nú einbeitum við okkur bara að deildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert