Til hamingju Tindastóll

Finnur Freyr býr sig undir að ræða við sína menn …
Finnur Freyr býr sig undir að ræða við sína menn í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Hari

„Til hamingju Tindastóll. Þetta var frábær frammistaða frá A-Ö og frá fyrsta manni til hins síðasta. Þetta var virkilega góð frammistaða þeirra og þeir eiga bikarinn skilið,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir 96:69-tap gegn Tindastóli í úrslitaleik Maltbikars karla í körfubolta í dag. 

Eins og gefur að skilja var Finnur ekki ánægður með frammistöðu KR í leiknum. 

„Hún var alls ekki nógu góð. Við lendum á vegg, skipulagið var lélegt og ég ber stóra ábyrgð á því. Við vorum ekki með lausnir á því sem Stólarnir voru að gera og því fór sem fór. Þeir ná strax körfum. Arnar byrjar að hitta strax í byrjun og á sama tíma erum við í vandræðum með að skapa okkur skot og góð færi.“

„3-4 mínútur eftir 1. leikhluta náum við að minnka þetta aðeins niður en í staðinn fyrir að komast inn í leikinn þá fara menn eins og Björgvin Hafþór að stíga upp og setja stór skot. Frammistaðan hjá Tindastóli var frábær.“

Hann hélt áfram að hrósa Tindastóli og segir að félagið eigi skilið titil. 

„Það er búið að vera vinna gríðarlega gott starf á Króknum og það er rosalega mikið af góðu fólki þarna og það sést á stuðningnum í stúkunni. Það má segja að það hafi verið kominn tími á uppskeru eftir því. Það sást hvort liðið vildi þetta meira. Allir lausir boltar og öll fráköst voru þeirra. Þeir voru mættir tveir í hvern bolta og við vorum undir á öllum sviðum leiksins.“

Brandon Penn kom til KR í stað Jalen Jenkins fyrir leikinn í dag. Penn spilaði alls ekki vel, en Finnur segir það ekki skipta miklu máli í dag. 

„Jalen var aldrei að fara að spila leikinn og þetta var spurning um hvort við yrðum með mann eða ekki. Það var erfið staða fyrir Brandon að koma inn í þennan leik. Ég axla fulla ábyrgð á því. Það skipti hins vegar ekki öllu því við áttum ekki séns,“ sagði Finnur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert