Við höfðum þetta af að lokum

Erna Hákonardóttir með bikarinn.
Erna Hákonardóttir með bikarinn. mbl.is/Hari

„Þetta var bara geðveikt, sérstök stemning og allt öðruvísi en vanalega,“ sagði Erna Hákonardóttir, fyrirliði Keflavíkur og nýkrýndur bikarmeistari, eftir 74:63 sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík í úrslitaleik Maltbikars kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag.

Njarðvíkingar eru langneðstir í deildinni og án sigurs en liðið sló út þrjú úrvalsdeildarlið á leið sinni í úrslitaleikinn og sagði Erna að þessi leikur væri aldrei að fara að vera auðveldur.

„Þær eru búnar að sýna það hvað þær geta með því að vinna þrjú sterk lið á leiðinni í úrslit og þær voru ekkert komnar hingað til að gefa okkur leikinn. Shalonda hjá þeim er frábær leikmaður, skorar 37 stig og við kannski brutum svolítið oft á henni en við lokuðum vel á aðra og tókst þetta að lokum. Okkar spilamennska var ágæt, við hefðum getað bætt ýmislegt en við höfðum þetta af að lokum.“

Keflavík hefur orðið fyrir þó nokkrum áföllum í vetur en þær Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Þóranna Kika Hodge-Carr hafa báðar slitið krossband ásamt því að veikindi herjuðu á leikmannahópinn í byrjun vikunnar. Erna segir sitt lið hafa sýnt karakter að vinna bikarinn þrátt fyrir þetta og hrósaði einnig Emblu Kristínardóttur sem gekk til liðsins fyrir jól og hefur komið afar vel inn í liðið.

„Við höfum sýnt karakter að yfirstíga þessi meiðsli og veikindi. Við gátum ekkert gert í því þó að við höfum allar verið veikar en við komum og sýndum það að við getum unnið. Embla er geðveikur leikmaður sem hjálpar okkur þvílíkt.“

mbl.is