Skallagrímur rak þjálfara sinn

Richardo González Dávila, fráfarandi þjálfari Skallagríms.
Richardo González Dávila, fráfarandi þjálfari Skallagríms. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur slitið samstarfi sínu við Richardo Gonzáles Dávila, þjálfara meistaraflokks kvenna og yngri flokka hjá félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu á facebook-síðu félagsins.

González var gagnrýndur fyrir framgöngu sína þegar liðið tapaði fyrir Njarðvík í undanúrslitum Maltbikars kvenna í körfubolta, en hann þótti helst til harður í gagnrýni sinni á leikmenn sína.

Þá lét Cameron Tyson-Thomas hafa það eftir sér eftir leik liðanna að hún teldi að sú leið sem González viðhafði við að stýra Skallagrímsliðinu í leiknum hefði orðið til þess að liðið laut í lægra haldi í leiknum. 

Fram kemur enn fremur í tilkynningunni frá körfuknattleiksdeild Skallagríms að unnið sé að ráðningu nýs þjálfara kvennaliðs Skallagríms, sem er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni fjögurra efstu liða í Dominos-deild kvenna í körfubolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert