Brotnum tvisvar eða þrisvar

Brynjar Þór Björnsson sækir að Ryan Taylor í kvöld. Ryan …
Brynjar Þór Björnsson sækir að Ryan Taylor í kvöld. Ryan Taylor átti virkilega góðan leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var allt of köflótt og það voru of mikið af lélegum mistökum í leiknum. Við réðum svo ekkert við Ryan Taylor undir körfunni og þessir tveir þættir urðu okkur ofviða í dag," sagði Finnur Freyr Stefánsson í samtali við mbl.is eftir 78:87-tap gegn KR í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

„Við vorum að reyna að sprengja upp leikinn og það tókst nokkrum sinnum ágætlega. Við gáfum hins vegar of mörg opin þriggja stiga skot í hröðum hlaupum þegar menn voru ekki einbeittir. Við hentum boltanum svo of oft í hendurnar á þeim og vorum að reyna hluti sem voru ekki til staðar."

ÍR náði forystunni í upphafi seinni hálfleiks og hélt henni út leikinn. 

„Við verðum undir strax í seinni hálfleiknum og það var erfitt, sérstaklega því Taylor hélt áfram að setja stig undir körfunni. Við brotnum líka tvisvar eða þrisvar og gefum hraðaupphlaup í trekk í trekk. Frammistaðan var ekki nógu góð, við getum ekki gert svona mikið af mistökum og unnið."

Pavel Ermolinskij og Jón Arnór Stefánsson voru ekki með KR í dag vegna meiðsla. Finnur segir KR-inga sakna þeirra. 

„Það hefði verið fínt að vera með Pavel og Jón. Við spiluðum mikið án þeirra fyrir jól en nú voru þeir komnir meira inn í leikinn hjá okkur. Það er vont að missa þá út á síðustu dögum. Vissulega væri gott að vera með tvo byrjunarliðsmenn og m.a besta leikmanninn. Mannskapurinn sem við vorum með í þessum leik er sá sem við vorum með og við ætlum ekki að fela okkur á bak við það. Við höfum unnið leiki án þeirra."

„Pavel meiðist á kálfa í bikarúrslitum og Jón fær í bakið í vikunni. Staðan á meiðslunum er óljós," sagði Finnur Freyr að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert