ÍR-ingar einir á toppnum

Matthías Orri Sigurðarson, ÍR, með boltann í leiknum í kvöld …
Matthías Orri Sigurðarson, ÍR, með boltann í leiknum í kvöld en Darri Hilmarsson er til varnar fyrir KR. mbl.is/Eggert

ÍR situr eitt á toppi Dominos-deildar karla í körfubolta eftir 87:78-sigur á KR í Breiðholtinu í kvöld. Jafnræði var með liðunum framan af en ÍR-ingar voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og tryggðu sér verðskuldaðan sigur. Haukar töpuðu gegn Þór Þ. í Þorlákshöfn og náði ÍR því tveggja stiga forystu á bæði KR og Hauka.

Liðin fóru mjög hægt af stað og fór aðeins eitt af fyrstu sjö skotum leiksins ofan í. Þar var að verki Kristófer Acox. Eftir því sem leið á leikhlutann batnaði skotnýtingin og bæði lið settu nokkra þrista í jöfnum leik. KR kláraði leikhlutann af krafti og náðu mest sjö stiga forskoti í stöðunni 22:15. Trausti Eiríksson lagaði stöðuna í 22:17 og þannig var hún að loknum leikhlutanum.

KR-ingar voru með frumkvæðið framan af 2. leikhluta og voru með 4-5 stiga forskot stóran hluta hans, en mestur var munurinn sjö stig. ÍR skoraði hins vegar átta af síðustu tíu stigum leikhlutans og var staðan því jöfn í hálfleik, 41:41. Leikurinn var ekki sérlega vel spilaður í fyrri hálfleik og gríðarlega mikið af töpuðum boltum hjá báðum liðum.

ÍR fór vel af stað í seinni hálfleik og náði fljótt fimm stiga forskoti, 49:44. Munurinn varð svo ellefu stig, 13 mínútum fyrir leikslok, 61:50. KR saxaði á forskotið með góðum kafla undir lok 3. leikhluta og var staðan 63:57 fyrir síðasta leikhlutann.

KR byrjaði betur í 4. leikhluta og skoraði fyrstu fimm stig hans og minnkaði muninn í 63:62. ÍR-ingar svöruðu því áhlaupi með býsna góðu áhlaupi hinum megin. Ryan Taylor og Danero Thomas skoruðu tvo þrista og staðan var orðin 73:64 og sjö mínútur eftir. Nær komust KR-ingar hins vegar ekki því ÍR varð mun sterkari aðilinn í blálokin. 

ÍR - KR 87:78

Hertz Hellirinn - Seljaskóli, Úrvalsdeild karla, 18. janúar 2018.

Gangur leiksins:: 2:2, 8:11, 10:16, 15:22, 21:26, 23:29, 36:37, 41:41, 47:44, 53:48, 59:50, 63:57, 68:64, 75:69, 79:69, 87:78.

ÍR: Ryan Taylor 34/9 fráköst, Danero Thomas 12/7 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 10/8 fráköst/11 stoðsendingar, Sæþór Elmar Kristjánsson 9/6 fráköst, Kristinn Marinósson 6, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 6, Sveinbjörn Claessen 5, Hákon Örn Hjálmarsson 3, Trausti Eiríksson 2/5 fráköst.

Fráköst: 26 í vörn, 14 í sókn.

KR: Brandon Penn 17/12 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 14, Darri Hilmarsson 13/8 fráköst, Kristófer Acox 13/7 fráköst/5 stolnir/3 varin skot, Björn Kristjánsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 7, Zaccery Alen Carter 2, Veigar Áki Hlynsson 2.

Fráköst: 23 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Halldor Geir Jensson.

ÍR 87:78 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert