Kristinn Jörundsson heiðraður af ÍR

Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR afhendir Kristni Jörundssyni blóm í kvöld …
Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR afhendir Kristni Jörundssyni blóm í kvöld ásamt ungum landsliðsmönnum ÍR. mbl.is/Eggert

ÍR heiðraði í kvöld Kristin Jörundsson, Kidda Jör, fyrrum leikmann og þjálfara liðsins fyrir leik ÍR og KR í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Keppnistreyja hans, númer 11, var við tilefnið dregin upp í rjáfur í Seljaskóla eins og venja er að gera til heiðurs einstakra leikmanna.

Kristinn var valinn körfuknattleiksmaður ársins á Íslandi í fyrsta vali þess árið 1973, og svo tvívegis eftir það. Hann lék í 20 ár með meistaraflokki ÍR, frá 1968 til 1988 og var sjö sinnum Íslandsmeistari með ÍR.

Kristinn lék 79 landsleiki með Íslandi á árunum 1970-1981 og var lengi fyrirliði landsliðsins. Á sama tíma lék hann svo tvo A-landsleiki í knattspyrnu, en hann varð einnig Íslandsmeistari í knattspyrnu með Fram og þrívegis bikarmeistari. Hann er þriðji markahæsti leikmaður Fram í efstu deild í knattspyrnunni frá upphafi með 60 mörk.

Vegna þess að nú eru 30 ár síðan Kristinn lagði skóna á hilluna ákvað ÍR að heiðra hann með þessum hætti þar sem treyja hans og númer verða til sýnis um ókomin ár.

Þá má geta þess að systkinabörn Kristins hafa gert það gott í íþróttunum en Andri Rúnar Bjarnason lék á dögunum sína fyrstu landsleiki í knattspyrnu og varð markakóngur Pepsi-deildar karla í fyrra, og Rut Jónsdóttir hefur verið landsliðs- og atvinnukona í handknattleik um árabil. Jörundur, sonur Kristins, var markvörður í knattspyrnu um árabil og lék síðast með Haukum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert