„Ætlum að ná í annan titil“

Helgi Rafn Viggósson og Antonio Hester gefa varamönnunum fimmu þegar …
Helgi Rafn Viggósson og Antonio Hester gefa varamönnunum fimmu þegar þeir fengu að kasta mæðinni um stund í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Helgi Rafn Viggósson var þokkalega sáttur með lið sitt í kvöld er nýkrýndir bikarmeistarar Tindastóls sóttu erkióvini sína í Þór heim til Akureyrar í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Eftir mikinn barning á lokakaflanum voru það Stólarnir sem fögnuðu sigri 77:72.

Hvernig var að mæta í þennan leik eftir frábæran bikarúrslitaleik?

„Þetta var dálítið tæpt. Við spiluðum ágætis leik í fyrri hálfleik en gáfum full mikið eftir á lokakaflanum. Við héldum þó haus og kláruðum þetta með skynsamlegum sóknum í lokin. Svona eru bara þessir grannaslagir. Það má aldrei slaka neitt á. Þetta er bara gaman og ef ekki tekst að gíra menn upp í svona leiki þá er eitthvað að.“

Þið sýnduð styrk í lokin þegar Þór var alveg að ná ykkur, fóruð ekkert á taugum.

„Nei það þýðir ekkert að gera það. Menn verða bara að vera slakir og halda áfram sínum leik. Við fórum meira inn í teig í lokin og kláruðum þá skotin.“

Þið voruð að skjóta mikið fyrir utan þrátt fyrir að skotin væru ekki að detta.

„Við erum með frábærar skyttur, Helga Frey, Hannes og Pétur. Þeir voru ekki nógu heitir í kvöld en það er bara stundum svoleiðis. Við hefðum mátt fara meira inn í teig til að opna betur fyrir þá.“

Ykkur vantaði stóra pósta í liðið í kvöld. Það hefur enginn verið settur í agabann eftir bikarfögnuðinn á laugardag?

„Nei, nei. Það er ekkert svoleiðis. Viðar og Sigtryggur Arnar eru báðir meiddir og Björgvin Hafþór er veikur þannig að þeir voru ekki með okkur í kvöld. Þeir ættu allir að vera klárir í næsta leik.“

Nú eruð þið búnir að fá smjörþefinn af því að vinna titil. Heldurðu að það muni ýta ykkur eitthvað lengra?

„Já. Það var náttúrulega svakalega gaman að vinna bikarinn, gott fyrir klúbbinn og fólkið okkar í Skagafirði og um allt land. Menn hafa margir lagt mikið á sig í gegnum tíðina. Við stefnum á að halda áfram á sömu braut og ætlum að ná í annan titil, það er bara þannig“ sagði Helgi Rafn að lokum áður en hann dreif sig á Pósthúsbarinn í pizzu með félögunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert