Laskaðir Stólar héldu út gegn Þór á Akureyri

Pétur Rúnar Birgisson sækir að körfu Þórs í leiknum í …
Pétur Rúnar Birgisson sækir að körfu Þórs í leiknum í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það var sannkallaður bikarmeistaraslagur á Akureyri í kvöld þegar Þór og Tindastóll áttust við í Dominos-deild karla í körfubolta.

Sem frægt er orðið þá valtaði Tindastóll yfir KR í bikarúrslitaleiknum á laugardag en Þór tók svo titilinn í drengjaflokki daginn eftir. Lykilmenn drengjaflokks Þórs spila einnig með meistaraflokki og því var nóg af bikarmeisturum á ferðinni í leiknum.

Stólarnir voru án þriggja lykilmanna en Viðar Ágústsson, Sigtryggur Arnar Björnsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson voru allir fjarri góðu gamni.

Leikurinn byrjaði með nokkrum látum og tóku Stólarnir strax forustu. Héldu þeir 10-15 stiga forskoti allan fyrri hálfleikinn þrátt fyrir að vera nokkuð frá sínu besta. Stólunum til happs þá voru heimamenn alls ekki nógu öflugir. Nino D´Angelo var eini Þórsarinn sem virkilega lét til sín taka í hálfleiknum og helstu skyttur liðsins hittu ekki neitt. Staðan var vænleg fyrir Tindastól í hálfleik en þeir leiddu 45:30.

Þór náði að saxa vel á forskot Stólanna í þriðja leikhlutanum og lentu gestirnir í allskyns vandræðum. Þeim tókst þó að halda haus og góð innkoma Hannesar Inga Mássonar skilaði þeim upp í 61:50 stöðu fyrir lokaleikhlutann. Hann var æsispennandi því Þór minnkaði muninn strax í fjögur stig. Var svo barist á banaspjótum allt til loka en það voru Stólarnir sem héldu út og þeir unnu að lokum 77:72.

Tindastóll er enn í miklum toppslag en tvö af toppliðunum, KR og Haukar töpuðu í kvöld. Þór er enn í næstneðsta sæti og staða liðsins versnaði til muna í kvöld þar sem Þór Þorlákshöfn vann leik sinn gegn Haukum.

Þór Ak. - Tindastóll 72:77

Höllin Ak, Úrvalsdeild karla, 18. janúar 2018.

Gangur leiksins:: 5:8, 7:13, 11:21, 16:24, 16:29, 24:34, 28:39, 30:45, 37:49, 40:49, 46:56, 50:61, 57:64, 59:66, 63:69, 72:77.

Þór Ak.: Nino D'Angelo Johnson 25/14 fráköst/3 varin skot, Hilmar Smári Henningsson 13, Pálmi Geir Jónsson 9/4 fráköst, Sindri Davíðsson 8, Júlíus Orri Ágústsson 7, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 4, Ingvi Rafn Ingvarsson 4/5 fráköst, Einar Ómar Eyjólfsson 2.

Fráköst: 15 í vörn, 13 í sókn.

Tindastóll: Antonio Hester 20/8 fráköst, Brandon Garrett 12, Pétur Rúnar Birgisson 11/11 fráköst/8 stoðsendingar, Hannes Ingi Másson 11, Helgi Freyr Margeirsson 10, Friðrik Þór Stefánsson 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Axel Kárason 3, Helgi Rafn Viggósson 2.

Fráköst: 21 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Einar Þór Skarphéðinsson, Johann Gudmundsson, Sigurbaldur Frimannsson.

Þór Ak. 72:77 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert