Héldum að við værum toppliðið

Ágúst Björgvinsson ræðir við sína menn.
Ágúst Björgvinsson ræðir við sína menn. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Já, því miður. Það er grátlegt að klára ekki þennan leik eins og marga aðra. Þetta er farið að verða þungt,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, eftir 83:77-tap gegn ÍR á heimavelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld er blaðamaður mbl.is spurði hann út í hvort leikurinn í kvöld hefði verið sama saga og stór hluti tímabils; tapa jöfnum leikjum.

„Við spilum engan veginn nógu vel í fyrri hálfleik og þeir voru duglegri en við. Við getum ekki boðið upp á það gagnvart sjálfum okkur. Það var meiri barátta í okkur í seinni hálfleik, en það var komið drullumikið sjálfstraust í ÍR-liðið sem mér fannst ekki vera í byrjun leiks. Við gáfum sjálfstraust.“

Það vantaði mikilvæga leikmenn í lið ÍR, ásamt því að Breiðhyltingar töpuðu tveimur leikjum í röð fyrir leik kvöldsins. Átti þetta ekki að vera fullkominn tími til að mæta ÍR?

„Það er gömul klisja en hún er sönn, það kemur maður í manns stað. Hákon var virkilega góður og skoraði risakörfu undir lokin. Það er erfitt fyrir okkur líka, þeir þétta sér saman á meðan við höldum að leikurinn verði eitthvað auðveldari og þess vegna vorum við ekki betri en þetta í byrjun. Við urðum eitthvað pirraðir því hlutirnir voru ekki að ganga með okkur. Það var eins og við höfðum haldið að við værum liðið sem væri búið að vera í toppsætinu í allan vetur, en ekki þeir. Það fór í pirrurnar á okkur að hlutirnir gengu ekki upp nákvæmlega eins og við vildum.“

Hvað hefur verið að koma í veg fyrir að Valsmenn nái í sigra, eftir svo marga jafna leiki?

„Við erum með góða breidd en það er höfuðverkur á móti að við finnum ekki alltaf með réttu blönduna inn á. Ein blanda virkar kannski betur í sókn og önnur í vörn. Við höfum ekki alveg náð að slípa það. Auðvitað reynir maður að horfa á eitthvað jákvætt. Við erum búnir að eiga mjög marga góða leiki og við erum búnir að vera að spila lengst af á tímabilinu mjög vel, þó að sigrarnir hafi látið á sér standa. Við getum verið fúlir með þetta í kvöld en svo er leikur aftur á fimmtudaginn. Við þurfum að halda áfram að reyna að gera það sem við gerum vel og minnka það sem við gerum illa,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert