Vorum hálfráðalausir og veikir fyrir

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við vorum „soft“ í fyrri hálfleik en það var allt annað að sjá okkur í seinni. Það er fyrri hálfleikurinn sem fer með okkur. Við vorum hálfráðalausir og veikir fyrir,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórsara, eftir þrettán stiga tap gegn Stjörnunni í Dominos-deild karla í kvöld. Þórsarar sýndu þó sparihliðarnar, sérstaklega í þriðja leikhluta.

„Við minnkum þetta niður í fjögur stig og gerum vel. Þriðji leikhluti var virkilega flottur hjá okkur. Síðan förum við að kvarta undan dómurum og hitt og þetta. Við megum ekki eyða okkar orku í það. Við þurfum að einbeita okkur að sjálfum okkur. Fókusinn fór annað og þar af leiðandi náum við aldrei að stíga þetta skref til þess að jafna og taka forystuna. Við þurfum að reyna að stjórna því sem við getum stjórnað og það eru ekki dómarnir.“

Þórsarar eru í erfiðri stöðu í deildinni, þeir eru fjórum stigum frá Val sem er í öruggu sæti þegar fjórir leikir eru eftir af deildinni. Til þess að tryggja tilverurétt sinn í deild þeirra bestu þurfa Þórsarar að vinna helst þrjá af síðustu fjórum og treysta á að Valsmenn nái ekki í mörg stig á meðan:

„Við eigum þessa fjóra leiki eftir og nú þurfum við að mæta enn þá einbeittari og enn þá sterkari. Tökum einn leik í einu. Næsta verkefni er ÍR á fimmtudaginn og við munum gera allt sem við getum til þess að koma heim með sigur úr því verkefni,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson.

mbl.is