Algjörlega galin tölfræði

Guðmundur Jónsson og félagar í Keflavík hafa tapað tvívegis fyrir …
Guðmundur Jónsson og félagar í Keflavík hafa tapað tvívegis fyrir Ingva Rafni Ingvarssyni og félögum í Þór. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Heimavöllurinn gaf ekki neitt í þessari 18. umferð Dominos-deildarinnar þar sem allir leikir unnust á útivelli. Það er reyndar einn leikur eftir þar sem Haukar taka á móti KR á sunnudaginn en þeim leik var frestað, við litla hrifningu KR-inga, vegna þess að Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, er staddur erlendis með kvennalandsliðinu. En miðað við hvernig þessi umferð hefur spilast þá vinnur KR góðan útisigur.

Leikirnir í þessari umferð voru allir mjög spennandi og voru úrslitin að ráðast í blálokin í flestum þeirra. En talandi um að heimavellirnir hafi ekki verið að gefa í þessari umferð þá eru skrítnir hlutir í gangi í gamla ,,Sláturhúsinu“ í Keflavík. Keflavíkurliðinu virðist algjörlega vera fyrirmunað að vinna þar inni. Sjö töp á heimavelli í röð er algjörlega galin tölfræði fyrir þetta félag. Ég var algjörlega sannfærður um að Keflavík myndi stöðva þessa taphrinu á heimavelli gegn Hetti en annað kom á daginn. Það hefur lítið sem ekkert gengið hjá liðinu eftir áramót. Þá er Keflavík búið að tapa tvisvar fyrir Þór Akureyri og einu sinni fyrir Hetti og er Keflavík eina liðið sem hefur tapað fyrir þessum tveimur félögum sem eru að öllum líkindum á leiðinni í 1. deild eftir örfáar vikur.

Það er væntanlega þungt yfir í Keflavík núna eftir þetta tap gegn botnliðinu en það er enginn tími fyrir félagið að detta í eitthvert þunglyndi. Á föstudaginn er leikur gegn Íslandsmeisturum KR og það er kjörið tækifæri fyrir menn að rífa sig í gang og sýna hvað í þeim býr. Þegar maður tapar óvænt þá þarf bara að ná í óvæntan sigur á móti. Keflavík er ennþá í 8. sæti í deildinni og því inni í úrslitakeppninni.

Lægðin lengi í kortunum

Í bransa þar sem leikmenn vinna leiki og þjálfarar tapa leikjum þá er auðvelt að benda á Friðrik Inga Rúnarsson sem stýrir Keflavíkurliðinu. Fyrir mér væri það ofboðslega mikil einföldun að skella skuldinni á hann. Þessi lægð karlaliðs Keflavíkur er búin að vera í kortunum í töluverðan tíma. Á meðan félagið hefur framleitt hágæða stelpur í mörg ár hefur félagið alið lítið sem ekkert af frambærilegum drengjum. Þeir sem spiluðu leikinn gegn Hetti eru allir aðkomumenn. Ég get talið þá leikmenn sem hafa látið til sín taka í meistaraflokki og eru frá Keflavík, síðan Magnús Gunnarsson, Arnar Freyr Jónsson, Jón Norðdal Hafsteinsson og sú kynslóð var og hét, á fingrum annarrar handar. Meira að segja þó svo ég væri smiður og það vantaði einhverja putta.

Ítarlegan pistil Benedikts Guðmundssonar má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert