Ætlum okkur enn þá toppsætið

Borche Ilievski.
Borche Ilievski. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borche Ilevski, þjálfari ÍR, var mjög kátur í samtali við mbl.is eftir 85:69-sigur á Þór Ak. í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Þór komst í 8:0, en eftir því sem leið á leikinn var aldrei spurning um hvort liðið stæði uppi sem sigurvegari.

„Við erum enn að leita að skipulaginu okkar aftur, sérstaklega því við vorum að byrja með nýjan leikstjórnanda. Til að byrja með vorum við að læra á vörnina þeirra. Við vissum að þeir myndu spila svæðisvörn, en það var aðeins spurning um hvers konar svæðisvörn.“

„Við náðum að undirbúa okkur vel fyrir það, en við klikkuðum á skotum í byrjun og vorum ekki nægilega skipulagðir. Eftir því sem leið á leikinn náðum við betri tökum og allt fór eins vel og við vildum.“

Matthías Orri Sigurðarson, einn besti leikmaður ÍR, hefur ekki verið með í síðustu tveimur leikjum. Ilevski er ánægður með liðið í hans fjarveru.

„Ég er að skipta meira núna og leyfa yngri leikmönnum að spila. Þeir eru að spila gríðarlega vel, bæði í vörn og sókn og þeir berjast vel, það gleður mig. Matti er frá í einhvern tíma, en í staðinn spilar liðið betur saman. Það voru fimm sem skoruðu tíu stig eða meira og einn með níu stig.“

Danero Thomas var borinn út af í síðasta heimaleik og fór á spítala í sjúkrabíl í kjölfarið. Þrátt fyrir það hefur hann spilað tvo leiki í röð eftir það. 

„Við vitum ekki hver staðan er á honum. Við þurfum að skoða það á morgun. Það er hans ákvörðun að spila og við kunnum að meta það. Hann er að fórna sér fyrir liðið og við vonum að hann sé ekki alvarlega meiddur. Við slökuðum á þangað til á mánudaginn og förum svo að undirbúa okkur fyrir þrjá síðustu leikina. Við fórum langt með að tryggja okkur heimavallarrétt með þessum sigri, en við ætlum okkur samt toppsætið.“

Hann býst við að Matthías Orri verði með áður en úrslitakeppnin fari af stað.

„Alveg klárlega. Við höfum tvær vikur fyrir næsta leik og hann er að æfa. Við viljum hins vegar ekki að hann spili of snemma, svo meiðslin hans verði ekki verri,“ sagði Ilevski að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert