Góð tilfinning að vera einir á toppnum

Kári Jónsson, leikmaður Hauka, kemst fram hjá Kristófer Acox, leikmanni …
Kári Jónsson, leikmaður Hauka, kemst fram hjá Kristófer Acox, leikmanni KR, í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fórum að verja forskotið og reyna að éta niður leikklukkuna of snemma. KR-ingar gengu á lagið og voru nálægt því að stela sigrinum. Við náðum hins vegar sem betur fer að landa þessum mikilvæga sigri,“ sagði Kári Jónsson sem skoraði 23 stig fyrir Hauka í 91:89-sigri liðsins gegn KR í toppslag í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

Haukar eru einir á toppi deildarinnar með 30 stig eftir þennan sigur og Kári var augljóslega ánægður með sigurinn og þá staðreynd að liðið sitji eitt á toppi deildarinnar. Það var hins vegar hógværð í Kára þegar hann ræddi við mbl.is um stöðu Hauka.

„Þetta er fáránlega jöfn deild og þau lið sem eru á leið í úrslitkeppni geta öll unnið alla. Það verður enginn mótherji auðveldur þegar þar að kemur. Nú er einbeitingin hjá okkur hins vegar bara á því að klára deildina með stæl og verða deildarmeistarar. Það verður erfitt, en við ætlum okkur það klárlega,“ sagði Kári um framhaldið hjá Haukum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert