Nýjungar í Stjörnuleik NBA

John Wall og Bradley Beal frá Washington Wizards eru báðir …
John Wall og Bradley Beal frá Washington Wizards eru báðir í liði LeBron James í Stjörnuleiknum og fengu treyjur sínar fyrir leik Washington á dögunum. AFP

Stjörnuleikur NBA-deildarinnar í körfuknattleik fer fram hér í Staples Center í Los Angeles í kvöld og í ár gerði deildin breytingu á valinu á liðunum.

Að venju voru byrjunarleikmenn úr Austur- og Vesturdeild valdir af NBA-stuðningsfólki af netinu (50%), NBA-leikmönnum sjálfum (25%), auk fréttafólks (25%). Þjálfarar liðanna völdu síðan alla varamenn.

Breyting í ár er sú að í stað þess að hafa einungis leikmenn frá annaðhvort Austur- eða Vesturdeild í liðunum, fengu fyrirliðar hvors liðs – þeir tveir leikmenn sem flest atkvæðin fengu í hvoru liði – tækifæri til að velja sína eigin samherja úr þessum valda hóp óháð því í hvorri deild þeir leika.

Stephen Curry fékk flest atkvæði allra leikmanna og fékk því fyrsta valið, en LeBron James fékk flest atkvæði Austurdeildarinnar og valdi því númer tvö. Þessir tveir fyrirliðar skiptust síðan á að velja úr hópi stjörnuleikmanna í lið sín. Það verða því ekki stjörnulið Austur- og
Vesturdeildar í þetta sinn, heldur lið Curry og lið James.

Byrjunarlið Curry verður hann sjálfur ásamt James Harden, DeMar DeRozan, Giannis Antetokounmpo og Joel Embiid. Ásamt James byrja Kevin Durant, Anthony Davis, Paul George og Kyrie Irving leikinn í liði James.

Vali James og Curry var ekki sjónvarpað í þetta sinn, en talið er víst að ef ánægja verður með þetta skipulag muni þessu stjörnuliðsvali verða sjónvarpað í framtíðinni því deildin missir sjaldan tækifæri á að setja upp skemmtun sem skilar gróða.

Stephen Curry reynir að komast fram hjá LeBron James í …
Stephen Curry reynir að komast fram hjá LeBron James í leik Cleveland og Golden State. Þeir fengu flest atkvæði og fara fyrir liðunum tveimur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert