Þetta var þægilegt í dag

Helena Sverrisdóttir sækir að körfunni fyrir Hauka á Ásvöllum í …
Helena Sverrisdóttir sækir að körfunni fyrir Hauka á Ásvöllum í kvöld. Birna Valgerður Benónýsdottir, Keflavík, sækir að henni. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru Íslandsmeistararnir og það er alltaf erfitt að mæta Keflavík, þótt það sé hér á heimavelli en þetta var bara þægilegt í dag,“ Þóra Kristín Jónsdóttir, leikmaður Hauka, eftir 81:63 sigur á Keflavík í 20. umferð Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld.“

Haukar skelltu sér á topp deildarinnar með sigrinum og hafa nú unnið ríkjandi Íslands- og bikarmeistarana þrisvar í vetur. Þóra segir að svo virðist vera sem sitt lið sé með ágætis tak á þeim.

„Það lítur út fyrir það allavega en það getur allt gerst á móti Keflavík, við megum ekki verða of kokhraustar fyrir næsta leik.“

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en að honum loknum stungu Haukar af og segir Þóra áræðinn varnarleik hafa skilað stigunum í hús.

„Við byrjuðum ekki nógu vel í vörn en að lokum skilaði hún þessu, vorum að frákasta vel og keyra á þær til að refsa mistökum, við áttum að stíga út og spila hart gegn þeim, það skóp þennan sigur.“

Haukar hafa nú unnið níu deildarleiki í röð en Þóra segir mikilvægt að leikmenn fari ekki fram úr sér

„Við verðum að halda okkur á jörðinni, það er stutt í úrslitakeppnina og við ætlum að halda okkar striki og enda eins ofarlega og mögulegt er.“

Þóra Kristín Jónsdóttir var ánægð er Haukar skelltu sér á …
Þóra Kristín Jónsdóttir var ánægð er Haukar skelltu sér á topp Dominos-deildarinnar. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert