Glæsilegur íslenskur sigur á Finnum

Ísland vann í kvöld glæsilegan 81:76-sigur á Finnlandi í undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta. Finnar komust mest 11 stigum yfir í seinni hálfleik en íslenska liðið neitaði að gefast upp og vann að lokum. 

Leikurinn fór hægt af stað og var það ekki fyrr en í sjöunda sókn leiksins að fyrstu stigin litu dagsins ljós. Haukur Helgi Pálsson skoraði þá rétt fyrir innan þriggja stiga línuna. Ísland náði svo 17:11-forystu stuttu fyrir lok 1. leikhluta en þá tóku Finnar leikhlé og skömmu síðar voru þeir finnsku komnir með 18:17 forystu. Martin Hermannsson skoraði hins vegar þrist í blálok leikhlutans og var Ísland því yfir eftir leikhlutann, 20:18. Martin Hermannsson skoraði 11 stig í leikhlutanum og var sjóðheitur.

2. leikhluti spilaðist svipað og sá fyrri. Íslenska liðið var oftar en ekki með smá forskot, en Finnar aldrei langt undan. Við og við náðu Finnar 1-2 tveggja stiga forystu, en íslenska liðið var ávallt fljótt að snúa því sér í vil. Að loknum jöfnum leikhluta var staðan 39:38, Íslandi í vil. Martin skoraði ekki eins mikið en Hlynur Bæringsson lék mjög vel og skoraði vel undir körfunni.

Finnar fóru betur af stað í 3. leikhluta og var staðan orðin 50:43, þeim í vil þegar leikhlutinn var hálfnaður. Þess fyrir utan fengu Hlynur Bæringsson og Hörður Axel Vilhjálmsson þriðju villur sínar snemma í leikhlutanum og fóru því á bekkinn.  Finnar náðu 11 stiga forskoti í stöðunni 55:44, en Íslendingar kláruðu leikhlutann nokkuð vel og minnkuðu muninn í átta stig fyrir síðasta leikhlutann, 63:55.

Íslenska liðið fór vel af stað í 4. leikhluta og skoraði fyrstu átta stig hans og jöfnuðu í leiðinni í 63:63. Finnar komust í kjölfarið í 67:63 en íslenska liðið var fljótt að jafna aftur í 67:67 þegar síðasti leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður og stefndi allt í æsispennandi lokamínútur. Íslenska liðið komst í 72:67 þegar fjórar mínútur voru eftir. Ísland náði svo sjö stiga forskoti, 78:71 þegar tæp mínúta var til leiksloka. Þann mun náðu Finnar ekki að vinna upp og sætur sigur leit dagsins ljós. 

Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 26 stig, og átti jafnframt flestar stoðsendingar, 6 talsins. Hlynur Bæringsson gerði 14 stig og tók 12 fráköst.

Ísland, Búlgaría og Finnland eru nú öll með 4 stig í riðlinum, en Ísland er í 2. sæti vegna innbyrðisviðureigna. Tékkar eru með 6 stig á toppnum þegar keppnin er hálfnuð. Þrjú liðanna komast áfram í milliriðil.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 26, Hlynur Bæringsson 14, Pavel Ermolinskij 8, Jón Arnór Stefánsson 7, Kristófer Acox 6, Hörður Axel Vilhjálmsson 5, Jakob Örn Sigurðarson 2, Logi Gunnarsson 2.

Tölfræði leiksins.

Ísland 81:76 Finnland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is