„Maður táraðist bara við að lesa þetta“

Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Haukur Helgi Pálsson, lykilmaður í körfuboltalandsliðinu, sagðist vart hafa trúað þeim fregnum að Logi Gunnarsson ætli að láta staðar numið með landsliðinu eftir leikina gegn Finnlandi og Tékklandi í undankeppni HM. 

„Maður táraðist bara við að lesa að hann væri að fara að hætta þessu. Maður veit ekki hvernig landsliðið verður án Loga. Auðvitað langar mig til að kveðja hann almennilega með helst tveimur sigrum, alla vega einum. Ef okkur tekst að vinna einn eða tvo leiki þá værum við komnir með annan fótinn í milliriðil. Þá yrðu tveir útileikir eftir og þess vegna eru þessir heimaleikir núna afar mikilvægir. Við verðum eiginlega að vinna alla vega annan þeirra,“ sagði Haukur í samtali við mbl.is en Ísland tapaði fyrir áramót fyrir Tékkum ytra og Búlgörum heima í undankeppninni. Þrjú efstu liðin fara áfram í milliriðil. 

Haukur Helgi Pálsson í leiknum gegn Búlgaríu.
Haukur Helgi Pálsson í leiknum gegn Búlgaríu. mbl.is/Kristinn Magnússon

 „Þessi Búlgaríuleikur var leiðinlegur því mér fannst að við hefðum átt að klára dæmið. Við þurfum að sýna okkar rétta andlit eftir þann leik. Mér fannst að við hefðum átt að vinna Búlgaríu og okkar fannst það öllum. Þeir settu reyndar niður mikilvægt skot undir lokin og ég tek ofan fyrir þeim að gera það. Þegar maður fór í gegnum þetta þá hefði ég kannski átt að biðja um skiptingu,“ sagði Haukur en hann haltraði um á lokamínútunum og reyndi að harka af sér meiðsli. 

„En nú eru það Finnarnir sem maður einbeitir sér að. Við erum búnir að vera lengi saman með svipaðan leikmannahóp og ég held að okkar lið líti ágætlega út en hjá Finnana vantar hins vegar mikilvæga leikmenn frá því á EM,“ sagði Haukur enn fremur.  

Leikur Íslands og Finnlands hefst kl. 19.45 í kvöld í Laugardalshöllinni og leikur Íslands og Tékklands verður á sama stað klukkan 16.00 á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert