„Rosalega mikilvægir leikir“

Gömlu samherjarnir hjá Sundsvall: Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson …
Gömlu samherjarnir hjá Sundsvall: Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson ásamt Martin Hermannssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jakob Örn Sigurðarson, leikmaður Borås í Svíþjóð, skoraði 18 stig í síðasta leik í undankeppni HM gegn Búlgaríu. Hann sneri þá aftur í landsliðstreyjunni eftir nokkurt hlé og framhald verður á í leikjunum gegn Finnlandi og Tékklandi sem fram undan eru. 

Ísland mætir Finnlandi klukkan 19.45 í kvöld og Tékklandi kl. 16 á sunnudag en báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni.

„Vilji var fyrir því hjá mér að taka þátt í þessum leikjum og þjálfararnir vildu nota mig. Þegar maður kemst á bragðið aftur þá er þetta rosalega skemmtilegt og gaman að spila með landsliðinu. Þetta gekk upp eins og síðast,“ sagði Jakob í samtali við mbl.is en báðir leikirnir í nóvember töpuðust gegn Tékkum og Búlgörum.

„Ég tók þátt í fyrstu tveimur leikjunum í þessari undankeppni og fannst við geta gert betur, sérstaklega gegn Búlgaríu. Þetta eru rosalega mikilvægir heimaleikir núna. Á meðan þjálfararnir telja að ég geti hjálpað liðinu þá er erfitt að segja nei.“

Þrjú efstu liðin af fjórum halda áfram í milliriðil í undankeppninni. Sú niðurstaða myndi þýða að Ísland héldi sér í sama styrkleikaflokki og áður þegar farið verður í undankeppni EM 2021. Hafni Ísland í neðsta sæti riðilsins þarf það að fara í forkeppni fyrir EM 2021 en vegna árangurs undanfarinna ára hefur liðið sloppið við það síðustu árin. 

„Þess vegna er mjög mikilvægt að ná einu af þremur efstu sætunum. Þetta snýst ekki bara um að komast áfram í milliriðilinn heldur einnig að halda sér í sama styrkleikaflokki sem við höfum unnið fyrir síðustu ár að vera í,“ sagði Jakob við mbl.is.

Jakob Örn Sigurðarson í leiknum gegn Búlgaríu.
Jakob Örn Sigurðarson í leiknum gegn Búlgaríu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert