Tryggvi ekki með gegn Finnum

Tryggvi Snær Hlinason er ekki með í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason er ekki með í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggvi Snær Hlinason verður ekki með íslenska körfuboltalandsliðinu sem mætir Finnum í kvöld í undankeppni HM sem fram fer í Kína á næsta ári. Tryggvi var í leikmannahópi spænska liðsins Valencia sem mætti Olympiacos í Evrópudeildinni í gær og komst ekki til landsins í tæka tíð.

Reiknað var með að Tryggvi kæmi til landsins í dag og flaug hann frá Grikklandi til Svíþjóðar í gærkvöldi. Þaðan átti leiðin að liggja til Íslands en vegna veðurs var fluginu frestað og er hann því sem stendur fastur í Svíþjóð. 

Ekki má kalla inn leikmann í stað Tryggva, þar sem ekki er heimilt samkvæmt reglum FIBA að bæta við manni á leikdegi, og verður Ísland því aðeins með 11 leikmenn á leikskýrslu í kvöld í stað 12. Mbl.is er að sjálfsögðu í Laugardalshöll og mun gera leiknum góð skil. Beina textalýsingu má nálgast með að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. 

Mbl.is er að sjálfsögðu í Laugardalshöll og gerir leiknum góð skil.

mbl.is