Fann það á mér að hann myndi klikka

Haukur Helgi Pálsson skýtur að körfu Tékka í dag.
Haukur Helgi Pálsson skýtur að körfu Tékka í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég spáði fyrir því að hann myndi klikka, ég fann það á mér einhvern veginn. Eina sem ég hugsaði um var að við þyrftum að ná frákastinu, sem við reyndar gerðum ekki, en ég er hrikalega ánægður með þennan sigur,“ sagði Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, eftir sætan 76:75-sigur á Tékkum í Laugardalshöll í kvöld. Ondrej Balvin gat jafnað leikinn á vítalínunni í blálokin en hann seinna vítið hans geigaði og íslenska liðið fagnaði.

Leikurinn var liður í undankeppni HM sem fram fer í Kína á næsta ári og var Haukur ánægður með heildarspilamennsku liðsins.

„Við spiluðum heilt yfir góða vörn þótt það kæmu nokkrar mínútur hér og þar og þeir fengu opin skot. Heilt yfir vorum við góðir bæði í vörn og sókn.“

Ísland fékk 11 villur á sig í 1. leikhluta og tók það tíma fyrir liðið að átta sig á furðulegri línu hjá dómurum leiksins.

„Ég skildi ekki alveg línuna á tímabili. Auðvitað er maður litaður en stundum fannst mér dæmt á sumt öðrum megin en ekki hinum megin. Ég ætla ekkert að ræða það frekar fyrst við unnum,“ sagði Haukur, sem bætti við að Ísland sé komið í ansi fína stöðu í F-riðli, fyrir síðustu leikina gegn Finnum og Búlgörum úti.

„Við erum í þokkalega góðri stöðu, þótt við séum ekki komnir áfram. Þetta er skref í rétta átt. Við þurfum einn sigur í viðbót í þessum tveimur útileikjum og þá ættum við að komast áfram.“

Haukur segir mikilvægt að vinna tvo leiki í röð, eftir nokkuð marga leiki í röð án sigurs þar á undan.

„Við klúðruðum á móti Búlgaríu og í leik sem við áttum að vinna. Við vildum sýna öllum að við getum unnið. Við erum landslið sem getur unnið leiki þrátt fyrir að margar umræður um að við gerum það ekki. Við erum rosalega góðir og þetta gerði mikið fyrir okkur og vonandi þjóðina líka. Við ætlum að halda þessu áfram,“ sagði Haukur Helgi Pálsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert