Ísland vann toppliðið í háspennuleik

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann stórkostlegan 76:75-sigur á toppliði Tékka í undankeppni HM í Laugardalshöllinni í dag. Fyrir leikinn hafði Tékkland unnið alla leiki sína í riðlinum og m.a. 20 stiga sigur á Íslandi í leiknum í Tékklandi. Íslenska liðið náði 16 stiga forskoti, en Tékkar kláruðu leikinn af miklum krafti og gátu jafnað í blálokin, það tókst hins vegar ekki og íslenskur sigur varð raunin. 

Þrátt fyrir erfiða byrjun var Ísland með 19:14-forystu eftir fyrsta leikhluta. Tékkar byrjuðu betur og íslenska liðið lenti í villuvandræðum hjá ströngum dómurum leiksins, en Ísland fékk alls ellefu villur í leikhlutanum. Sem betur fer hittu Tékkar frekar illa á vítalínunni á meðan íslenska liðið óx eftir því sem leið á.

Íslenska liðið byrjaði 2. leikhluta með glæsibrag og komst í 31:17. Martin Hermannson, sem hafði hægt um sig í 1. leikhluta, fór að leggja meiri þunga í sóknarleikinn með góðum árangri og höfðu Tékkar fá svör. Undir lok leikhlutans náðu Tékkarnir að minnka muninn niður í sjö stig og var staðan fyrir seinni hálfleikinn 39:32.

Tékkar byrjuðu seinni hálfleikinn mikið betur og minnkuðu muninn í eitt stig, 39:38. Íslenska liðið hleypti Tékkum þó ekki yfir og náðu aftur forskoti. Stuttu fyrir lok 3. leikhluta var staðan 53:47. Staðan eftir leikhlutann var þá 59:54 og stefndi í spennandi lokaleikhluta.

Ísland byrjaði síðasta leikhlutann vel og þriggja stiga karfa Jóns Arnórs Stefánssonar kom Íslandi aftur tíu stigum yfir, 64:54, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Tékkar gerðu sig líklega til að minnka muninn en þá tók Martin Hermannsson til sinna ráða og skoraði tvær þriggja stiga körfur á stuttum tíma og kom Íslandi 76:60 yfir, fjórum mínútum fyrir leikslok.

Sem fyrr gáfust Tékkar ekki upp og tókst þeim að minnka muninn í 76:68, tveimur mínútum fyrir leikslok. Tékkar minnkuðu muninn enn frekar og var hann kominn niður í tvö stig þegar Tékkar lögðu af stað í síðustu sókn sína, þar sem Odrej Balvin náði í tvö vítaskot. Hann skoraði úr fyrra en klikkaði á því síðara og Ísland vann því æsispennandi leik með minnsta mun.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 26, Tryggvi Snær Hlinason 15, Jón Arnór Stefánsson 11, Haukur Helgi Pálsson 10, Jakob Örn Sigurðarson 7, Hlynur Bæringsson 3, Kristófer Acox 3, Pavel Ermolinskij 1. 

Ísland 76:75 Tékkland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert