Haukar ætluðu ekki að láta 2017 endurtaka sig

Haukar fögnuðu deildarmeistaratitlinum um síðustu helgi.
Haukar fögnuðu deildarmeistaratitlinum um síðustu helgi. mbl.is/Hari

Úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik hefst á morgun.

Haukar stóðu uppi sem deildarmeistarar í Dominos-deildinni og eiga þar með heimaleikjarétt ef á þarf að halda en Haukar mæta Keflvíkingum í 8-liða úrslitum.

Sveiflurnar hjá Haukum hafa verið ógurlegar síðustu þrjú tímabil. Liðið komst í úrslitarimmuna 2016 en tapaði þar fyrir KR. Í fyrra þurfti liðið að hafa fyrir því að halda sæti sínu í deildinni og í vetur varð efsta sætið niðurstaðan.

Í fyrra naut Kára Jónssonar ekki við þar sem hann var í námi í Bandaríkjunum. Þótt Kári sé vissulega toppmaður í Dominos-deildinni þá skýrir það varla eitt og sér svo miklar sveiflur. Morgunblaðið spurði Ívar Ásgrímsson, þjálfara Hauka, út í þetta atriði.

Ekki nógu grimmir að æfa

„Síðasta tímabil var nokkuð sérstakt en fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi vorum við ekki nógu grimmir að æfa yfir sumarið. Við lentum í meiðslum eftir úrslitaviðureignirnar við KR. Einnig voru menn svolítið saddir eftir að hafa náð markmiðum sem fylgdu fjögurra ára áætlun. Sumarið fór í handaskolum hjá okkur. Í upphafi tímabilsins voru menn meiddir og við lentum í vandræðum með að finna útlending sem hentaði okkur. Auk þess töpuðum við fjórum leikjum eftir framlengingar fyrir áramót og töpuðum mörgum jöfnum leikjum til viðbótar. Þetta fór á sálina hjá mönnum. Við spiluðum ekki gríðarlega illa í fyrra að öllu leyti en tókst ekki að landa sigrum. Það hefur okkur hins vegar tekist að gera í vetur og höfum unnið jafna leiki. Í vetur höfum við ekki lent í miklum vandræðum. Menn sýndu karakter eftir síðasta tímabil og ætluðu ekki að láta það endurtaka sig,“ sagði Ívar hreinskilnislega.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag