Eins og eftir sóðalegt partí

Arnþór Freyr Guðmundsson í leik gegn ÍR.
Arnþór Freyr Guðmundsson í leik gegn ÍR. Ljósmynd/Golli

„Við komum inn í klefann og þetta var eins og eftir sóðalegt partí," sagði Arnþór Freyr Guðmundsson, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is í dag. Brotist var inn í klefa Stjörnumanna á meðan leikur liðsins við ÍR í átta liða úrslitum Dominos-deildinnar í körfubolta stóð yfir í gærkvöldi. Vísir greindi fyrst frá.

„Það voru ávextir út um allt og eigur okkar voru í ruslafötum og í sturtuklefa. Það var búið að taka föt af snögum og henda á gólfið ásamt því að skóm var komið fyrir í klósettinu,"bætti hann við.

Arnþór segir uppákomuna vissulega pirrandi, en Stjörnumenn láta hana ekki á sig fá.

„Það er ömurlegt að eignir okkar geta ekki verið látnar í friði. Það er aðallega það sem við erum pirraðir yfir. Þetta hefur samt engin sérstök áhrif á okkur. Við ætlum hins vegar klárlega að mæta í næsta leik og vinna hann. Það er það eina sem við erum að pæla."

Stjarnan mætir ÍR að minnsta kosti einu sinni til viðbótar í Breiðholtinu verða Arnþór og félagar að vinna útileik til að fara áfram í undanúrslitin.

„Þessi sería er rétt að byrja og við ættum klárlega að koma aftur í Hellinn og sigra. Það er gaman að koma í Seljaskóla að spila og það er leiðinlegt að svona uppákomur skemmi góða leiki."

„Við vorum að hitta afar illa í fyrri hálfleik, en við fengum fullt af skotum. Við vorum fínir í vörn, þó við getum gert margt betur. Okkur líður eins og við séum að spila ágætlega, það eru bara litlir hluti sem við þurfum að pússa. Það verður klárt fyrir mánudaginn og við erum staðráðnir í að vinna þá," sagði Arnþór Freyr að lokum.

Körfuboltadeild ÍR sendi frá sér tilkynningu á Twitter í dag. Hún harmar atvikið og verður það rannsakað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert