Stólarnir unnu eftir framlengingu

Antonio Hester og J'Nathan Bullock takast á í kvöld.
Antonio Hester og J'Nathan Bullock takast á í kvöld. Ljósmynd/Hjalti Árnason

Fyrsti leikur Tindastóls og Grindavíkur í úrslitakeppninni í körfubolta fór fram í kvöld. Að sjálfsögðu var gríðarleg eftirvænting í loftinu og fríður flokkur Grindvíkinga kom norður á Sauðárkrók til að hvetja sitt lið. Framlengja þurfti leikinn þar sem heimamenn rétt mörðu sigur 96:92 eftir fáránlega spennandi leik.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og voru liðin í fantaformi. Jafnt var allan fyrsta leikhlutann en Stólarnir voru þó alltaf á undan að skora. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 22:19. Grindvíkingar voru einnig að elta allan annan leikhlutann og mestur varð munurinn ellefu stig. Grindvíkingar virtust slegnir úr en þeir voru fljótir að minnka muninn og með síðustu körfu fyrri hálfleiks komust þeir yfir í fyrsta skipti í leiknum. Þá skoraði Ingvi Þór Guðmundsson gjafakörfu og kom liði sínu í 44:43.

Allan þriðja leikhlutann skiptust liðin á að taka forustuna þar til Grindvíkingar hreinlega lokuðu á allt og Stólarnir náðu varla körfu seinustu mínúturnar. Grindvíkingar leiddu með fimm stigum fyrir lokaleikhlutann, 61:56. Og sá leikhluti var svakalegur.

Grindvíkingar voru skrefi á undan lengi vel en þegar stutt var eftir jafnaði Sigtryggur Arnar Björnsson leikinn í 70:70. Liðin skiptust svo á að hafa forustu. Dagur Kár Jónsson setti svo flautukörfu undir lokin og kom Grindavík í 81:78. Stólarnir náðu að jafna með undrakörfu frá Sigtryggi Arnari og því var framlengt.

Þar voru Stólar alltaf líklegri. Þeir voru ýmist yfir eða staðan jöfn og Króksarar unnu að lokum 96:92 eftir fáránlega spennandi leik.

Sigtryggur Arnar Björnsson var aftur kominn í gang eftir þrálát nárameiðsli og munaði um minna í liði Stólanna. Hann kom leiknum í framlengingu með undrakörfu og tók svo leikinn yfir eftir það.

Næsti leikur í þessu einvígi fer fram í Grindavík á þriðjudagskvöld.

Tindastóll - Grindavík 96:92

Sauðárkrókur, Úrvalsdeild karla, 16. mars 2018.

Gangur leiksins:: 9:4, 11:9, 17:16, 22:19, 25:21, 36:25, 40:38, 43:44, 43:48, 49:48, 52:56, 56:61, 60:66, 67:70, 74:72, 81:81, 91:87, 96:92.

Tindastóll: Antonio Hester 33/9 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 24/6 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 18/11 fráköst/7 stoðsendingar, Viðar Ágústsson 7, Chris Davenport 5, Hannes Ingi Másson 5, Helgi Freyr Margeirsson 3, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 1/4 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 14 í sókn.

Grindavík: Dagur Kár Jónsson 26/8 stoðsendingar, J'Nathan Bullock 25/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 19/14 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 8/5 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 7/6 fráköst, Ólafur Ólafsson 4/6 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 2, Ómar Örn Sævarsson 1.

Fráköst: 34 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Ísak Ernir Kristinsson, Jóhannes Páll Friðriksson.

Áhorfendur: 600

Tindastóll 96:92 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert