Skagfirsk flenging í Grindavík

Antonio Hester sækir að körfu Grindavíkur í kvöld. Þorsteinn Finnbogason …
Antonio Hester sækir að körfu Grindavíkur í kvöld. Þorsteinn Finnbogason er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Tindastóll er kominn í 2:0 í einvígi sínu gegn Grindavík í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta eftir 114:83-sigur í Grindavík í kvöld. Tindastóll getur unnið einvígið með sigri á heimavelli í þriðja leik liðanna á föstudaginn kemur.  

Antonio Hester skoraði þrjú fyrstu stig leiksins fyrir Tindastól og var staðan 3:0. J’Nathan Bullock minnkaði muninn í 3:2, en eftir það stækkaði forskotið hægt og rólega eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20:14. Gestirnir hittu mjög vel úr þriggja stiga skotum sínum í byrjun 2. leikhluta og þegar hann var hálfnaður var staðan orðin 38:25.

Grindvíkingar enduðu 2. leikhluta ágætlega og minnkuðu muninn í níu stig, 48:39, og þannig var hún í hálfleik. Tindastóll náði hvað eftir annað að opna vörn Grindavíkur og fá opin þriggja stiga skot sem voru vel nýtt. Hinum megin gekk töluvert verr að finna glufur á sterkri vörn Tindastóls og þurftu Grindvíkingar að hafa töluvert meira fyrir hverju stigi en gestirnir.

Grindavík byrjaði þokkalega í 3. leikhluta og minnkaði muninn í sex stig. Sem fyrr hafði Tindastóll nóg af svörum og var munurinn skömmu síðar kominn upp í 13 stig og voru Grindvíkingar ekki líklegri til þess að jafna eftir það. Staðan fyrir síðasta leikhlutann var 78:63.

Tindastóll bætti enn í forskotið í 4. leikhluta og var staðan 92:68 þegar sex mínútur voru til leiksloka. Munurinn varð síðan 30 stig í stöðunni 98:68. Að lokum munaði 31 stigi á liðunum og niðurlægjandi tap Grindavíkur varð raunin.

Gangur leiksins: 2:3, 4:9, 10:15, 14:20, 19:26, 25:38, 36:45, 39:48, 43:54, 53:59, 56:70, 63:78, 68:84, 68:98, 75:105, 83:114.

Grindavík: Dagur Kár Jónsson 22/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 17/5 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 12/4 fráköst, J'Nathan Bullock 11/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/6 fráköst/6 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 5, Jóhann Árni Ólafsson 4, Þorsteinn Finnbogason 2, Ómar Örn Sævarsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 7 í sókn.

Tindastóll: Antonio Hester 28/7 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 26, Axel Kárason 17, Pétur Rúnar Birgisson 11/5 fráköst/7 stoðsendingar, Chris Davenport 9/5 fráköst, Hannes Ingi Másson 7/5 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 7/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 5/7 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 3, Friðrik Þór Stefánsson 1.

Fráköst: 31 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Grindavík 83:114 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert