Ævintýraleg sigurkarfa Kára

Kári Jónsson átti góðan leik er liðin mættust í síðustu …
Kári Jónsson átti góðan leik er liðin mættust í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Kári Jónsson skoraði ævintýralega sigurkörfu frá eigin vallarhelmingi þegar Haukar stálu sigri í Keflavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta. Haukar unnu fyrsta leikinn á heimavelli sínum, 83:72 og eru því yfir 2:0 í rimmunni en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit. 

Kári sýndi á lokasekúndunum að hann er fáum líkur á körfuboltavellinum. Haukar fengu boltann þegar 15 sekúndur voru eftir og undir 82:79. Hann reyndi að komast í erfitt þriggja stiga skot með tvo í sér og Reggie Dupree braut á honum þegar tæpar 4 sekúndur voru eftir. Kári var sallarólegur á vítalínunni og setti niður öll þrjú vítaskotin. 

Keflavík tapaði boltanum í síðustu sókninni. Kári reyndi örvæntingarfullt skot frá eigin vallarhelmingi og hitti! Þvílík sigurkarfa á síðustu sekúndunni og nánast eins og í epískri bíómynd frá Walt Disney. 

Haukar stálu þessum sigri því Keflvíkingar voru yfir nánast allan leikinn og náðu um tíma fimmtán stiga forskoti. Staðan var 66:51 fyrir Keflavík fyrir síðasta leikhlutann en þá gekk flest á afturfótunum hjá heimamönnum og deildameistararnir komust á bragðið. Þeir komust þó ekki yfir fyrr en um leið og lokaflautið gall, ef frá er talið þegar Haukar voru yfir 79:78 í örfáar sekúndur. Voru það einu tvö skiptin sem Haukar voru yfir í leiknum.  

Þriggja stiga karfa Kára var hans sjöunda í leiknum og þar af voru þrjár í síðasta leikhlutanum. Alls skoraði hann 27 stig og Paul Jones 24. Emil Barja skoraði ekki nema 2 stig í leiknum en hann var nánast sá eini sem var að berjast hjá Haukum þegar útlitið var svart og sýndi leiðtogamerki. 

Guðmundur Jónsson átti frábæran leik fyrir Keflavík og skorðai 23 stig. Var auk þess gríðarlega sterkur í vörninni. Ekki síst sorgleg niðurstaða fyrir hann. Guðmundur fékk sína 5. villu á 38. mínútu. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 15 stig og gaf 7 stoðsendingar. 

Gangur leiksins: 5:5, 15:9, 21:14, 27:17, 29:22, 35:28, 44:34, 44:41, 49:41, 54:42, 59:49, 66:51, 72:66, 75:71, 78:75, 82:79, 82:85.

Keflavík: Guðmundur Jónsson 23, Hörður Axel Vilhjálmsson 15/4 fráköst/7 stoðsendingar, Christian Dion Jones 12/6 fráköst, Reggie Dupree 9/7 fráköst, Magnús Már Traustason 9, Ágúst Orrason 6, Ragnar Örn Bragason 5, Dominique Elliott 3/5 fráköst.

Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.

Haukar: Kári Jónsson 27/5 fráköst/8 stoðsendingar, Paul Anthony Jones III 24/12 fráköst, Haukur Óskarsson 15, Finnur Atli Magnússon 8/6 fráköst/3 varin skot, Breki Gylfason 5/4 fráköst, Emil Barja 2/4 fráköst, Hjálmar Stefánsson 2, Kristján Leifur Sverrisson 2/4 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Keflavík 82:85 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert