„Meiri vitleysan“

Kári Jónsson.
Kári Jónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Galdramaðurinn Kári Jónsson glotti bara þegar mbl.is tók hann tali eftir að Hafnfirðingurinn skoraði flautukörfu frá eigin vítateig og tryggði Haukum sigur á Keflavík 85:82 í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar.

„Þetta er meiri vitleysan. Vááá. Maður er eiginlega enn þá að ná áttum,“ sagði Kári og spurður um hvort hann hafi upplifað eitthvað þessu líkt sagðist hann hafa skorað flautukörfu í bikarúrslitaleik í yngri flokkunum. „Þetta hefur komið fyrir einu sinni áður. Það var í bikarúrslitaleik í 9. flokki og eru því nokkuð mörg ár síðan. Þar er umgjörðin nú aðeins minni en hérna í kvöld og þetta var alger snilld.“

Kári gerði 6 stig á síðustu 3 sekúndum leiksins. Í næstsíðustu sókn Hauka tók hann þrjú víti og hitti úr þeim öllum þegar 3,4 sekúndur voru eftir. Hann virtist sallarólegur á vítalínunni.

„Já já. Maður hefur æft fyrir svona augnablik. Ég hef örugglega tekið mörg þúsund víti á æfingum og þá reynir maður að setja sig í aðstæður þar sem allt húsið er á móti manni og allir vilja að þú brennir af. Þetta var geggjað og lætin í húsinu svakaleg. Maður var nánast með suð í eyrunum og mig langaði til að þagga niður í áhorfendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert