Logi á mörg ár eftir

Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. mbl.is/Golli

„Að tapa 3:0 eru náttúrulega mikil vonbrigði,“ sagði reynsluboltinn Logi Gunnarsson eftir að KR sigraði Njarðvík, 81:71 í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. KR er komið í undanúrslit en Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí.

„Mér finnst við vera nógu góðir til að vinna hérna í dag. Þeir lentu í vandræðum með vörnina okkar og gátu ekki spilað sinn sóknarbolta sem þeir eru vanir. Þeir fundu glufur í endann en við hefðum þurft að halda þetta út aðeins lengur,“ sagði Logi.

Hann tók undir með blaðamanni að Njarðvíkingar hefðu þurft að hitta betur til að eiga meiri möguleika á því að ná sigri í kvöld. „Við vorum að búa til ágætis skot en þeir eru gott varnarlið og eru góðir þegar þeir ná að setja upp fimm á móti fimm á hálfum velli. Við vildum keyra á þá en þeir náðu í lok leiksins að stilla upp á hálfum velli og þá er erfitt að skora á móti þeim.“

Logi sagði að þetta hefði verið besti leikur Njarðvíkinga í seríunni og það sé svo stutt á milli í sportinu. „Ef við hefðum unnið hefðum við farið aftur til Njarðvíkur og þess vegna er það svo svekkjandi að fá ekki einn leik í viðbót til að jafna þetta. Mér fannst við góðir í kvöld.“

Hann sagði að tímabilið í heild sinni væri vonbrigði og að Njarðvíkingar hafi ætlað sér meira en að falla út í 8-liða úrslitum.

Þú ert nýhættur með landsliðinu. Eru skórnir að fara á hilluna?

„Nei, ég á nóg eftir. Mörg, mörg ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert