Ryan tók sundtakið á Hlyn

Borche Ilievski.
Borche Ilievski. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er þreyttur, alveg búinn á því en ánægður, við unnum leikinn,“ sagði örmagna Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir tæpan 67:64-sigur á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld.

Sem fyrr var ekki mikið skorað í leiknum en bæði lið hafa spilað mjög agaðan varnarleik í gegnum allt einvígið.

„Bæði lið einbeita sér mikið að varnarleiknum og þekkja hvort annað vel. Vörnin virðist vera aðalatriðið í þessari seríu og ég býst við að það verði þannig áfram. Vonandi bara í einn leik í viðbót en þeir gætu alveg verið tveir.“

Það dró heldur betur til tíðinda snemma leiks þegar Ryan Taylor, leikmaður ÍR, virtist gefa Hlyni Bæringssyni olnbogaskot. Taylor fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu en Stjörnumenn voru æfir yfir þessu atviki. Ilievski segir þetta hafa verið óviljaverk hjá sínum manni og gaf skemmtilega lýsingu á því.

„Ég held að Ryan hafi verið að taka hreyfingu sem við köllum sundtakið, þegar menn reyna að vinna sér stöðu á vellinum. Ég held að hann hafi farið í hann með olnboganum en ég þarf að sjá endursýninguna, ég sneri baki í þetta og þarf að sjá þetta aftur. Ryan er frábær íþróttamaður, mikil keppnismanneskja en þetta var ekki viljandi.“

„Þetta er stríð undir körfunni, hjá báðum liðum. Mikil snerting og hörku naglar í báðum liðum.“

Að lokum segir Ilievski sína menn þurfa að taka fleiri fráköst og vonar hann að ÍR geti klárað einvígið í Ásgarði á sunnudaginn kemur.

„Þeir eru að taka einhverjum 20 fráköstum meira en við, það er stórt vandamál fyrir okkur. Við verðum að leysa þetta, það er ekki auðvelt að spila gegn Hlyni, hann er karakter og erfitt að stoppa hann. Það er lítið á milli þessara liða en við munum gera allt til að klára seríuna á sunnudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert