Stjörnumenn æfir út í olnbogaskot Taylors

Ryan Taylor og Hlynur Bæringsson eigast við í leik ÍR …
Ryan Taylor og Hlynur Bæringsson eigast við í leik ÍR og Stjörnunnar fyrr á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan tapaði 67:64-gegn ÍR í Seljaskóla í kvöld í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik. ÍR er nú 2:1 yfir í einvíginu og getur tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri í Ásgarði á sunnudaginn kemur.

„Þetta er eins og þetta hefur verið, það er eins og leiknum hafi verið ætlað að enda í þessu. Þeir enda ofan á og því fór sem fór,“ sagði svekktur Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir að hans menn fengu tækifæri til að jafna metin í lokasókn leiksins.

Leikurinn var, eins og fyrri rimmur liðanna, nokkuð kaflaskiptur en heimamenn voru 12 stigum yfir snemma í 4. leikhluta. Gestirnir komu þó með lokaáhlaup og voru ekki langt frá því að knýja fram framlengingu.

„Ég var ánægður með það hvernig við komum til baka hérna eftir að hafa verið 10-12 stigum undir. Við tökum það með okkur að vera lið sem gefst aldrei upp.“

Umdeildasta atvik kvöldsins átti sér þó stað snemma leiks þegar Ryan Taylor, leikmaður ÍR, sló í höfuðið á Hlyni Bæringssyni. Hlynur lá nokkuð lengi eftir höggið og fékk Hrafn tæknivillu fyrir mótmæli sín. Taylor sjálfur fékk óíþróttamannslega villu dæmda á sig en þeir Hrafn og Hlynur voru alls ekki sáttir með þetta atvik.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst, þegar maður horfir á atvikið, að leikmaðurinn slær hann viljandi í höfuðið. Við erum með þrjá dómara á vellinum og mér sárnar það að þeir skuli ekki túlka atvikið á þann hátt að hér hafi verið um árás að ræða,“ sagði Hrafn við mbl.is eftir leikinn.

Hlynur var einnig á því, að þetta hafi verið viljandi hjá Bandaríkjamanninum.

„Það var bara óheiðarlegt, því miður. Ég er mjög ósáttur með allt sem kom í kjölfarið líka, hvernig þetta var höndlað. Ég berst mikið en enginn andstæðingur minn í gegnum tíðina getur sagt að ég hafi slegið hann viljandi í hausinn.“

Hlynur hefur verið drjúgur í vörn Stjörnunnar í einvígjum liðanna en fengið ansi fáar villur, hann segir ástæðuna fyrir því einfaldlega vera góða körfuboltahæfileika.

„Ég kann að spila vörn, það er engin tilviljun hverjir eru alltaf í villuvandræðum og hverjir ekki. Það er ekki af því að öllum dómurum sem hafa dæmt hjá mér í gegnum tíðina finnist ég vera svona skemmtilegur. Það er hæfileiki að kunna að spila vörn án þess að senda menn alltaf á vítalínuna, það er bara þannig. Í svona leikjum myndi ég treysta mér til að spila á enn færri villum.“

„Ég hlakka bara til að spila næsta leik. ÍR er með ágætislið, þetta eru svona stemningskallar einhverjir og Guð blessi þá. Vonandi getum við unnið þá næst,“ sagði Hlynur að endingu.

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert