Margt sem hægt er að gera mun betur

Finnur Freyr Stefánsson.
Finnur Freyr Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, sagði eftir 76:67-tap gegn Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik að Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára ættu helling inni.

„Við vorum ryðgaðir varnarlega og þeir á sama tíma klárir. Við fáum á okkur 30 stig í fyrsta leikhluta, 46 eftir það og þar af nokkur í lokin,“ sagði Finnur við mbl.is eftir leikinn á Ásvöllum í kvöld.

„Við eigum helling inni og það er svo margt sem við getum gert miklu betur. Við erum að klára hræðilega í kringum körfuna, erum að hnoða boltanum og tapa honum allt of mikið á klaufalegan hátt,“ sagði Finnur.

„Miðað við hversu illa við spiluðum og að við höfum samt átt tækifæri segir ákveðna hluti. Við þurfum að gera töluvert betur á mánudaginn,“ bættir Finnur við en næsti leikur liðanna fer fram í vesturbænum á mánudagskvöld.

Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson léku ekki með KR í kvöld. Brynjar hitaði þó upp í kvöld en Finnur sagði að það hefði einungis verið hótun og sagðist ekki hafa hugmynd um hvort þeir yrðu klárir í slaginn í næsta leik.

„Hvort sem þeir eru með eða ekki getum við gert mun betur. Ég er strax spenntur fyrir mánudeginum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert