„Áherslubreytingar hjá þjálfaranum“

Ragnar Nathanaelsson í leik með Njarðvíkingum í vetur.
Ragnar Nathanaelsson í leik með Njarðvíkingum í vetur. mbl.is/Hari

„Framtíð mín er óljós. Ég er ekki búinn að semja við annað félag en það er ljóst að ég hef spilað minn síðasta leik með Njarðvík,“ sagði körfuboltamaðurinn Ragnar Nathanaelsson við mbl.is en frá því var greint á heimasíðu Njarðvíkur fyrr í dag að samstarfi hans og Suðurnesjaliðsins sé lokið.

Spurður hvort hann sé að íhuga að spila erlendis sagði Ragnar;

„Ég mun skoða allt sem kemur en ég bara rólegur,“ sagði Ragnar, sem hefur spilað bæði í Svíþjóð og á Spáni en hann ákvað að koma heim frá Spáni fyrir þetta tímabil og samdi við Njarðvík til tveggja ára.

„Það er kominn nýr þjálfari sem hefur sínar áherslur og það var sameiginleg niðurstaða hjá mér og Njarðvík að slíta samstarfinu. Það voru engin leiðindi í þessu og þetta er bara partur af þessu sem gerist í sportinu. Ég er búinn að sækja um í háskólanum fyrir næsta vetur enda verður maður að horfa fram í tímann eftir að ferlinum lýkur. Það er því allt eins líklegt að ég spili hér heima á næstu leiktíð en ef eitthvað spennandi kemur upp þá mun ég vitaskuld skoða það,“ sagði Ragnar.

Þjálfaraskipti urðu hjá Njarðvíkingum á dögunum. Einar Árni Jóhannsson var ráðinn þjálfari í stað Daníels Guðna Guðmundssonar og fyrsta verk Einars Árna var að semja við Ólaf Helga Jónsson, sem lék undir stjórn Einars hjá Þór Þorlákshöfn en Ólafur er fyrrum leikmaður Njarðvíkur.

Ragnar er 26 ára gamall og skoraði 8 stig að meðaltali í leik með Njarðvíkingum í vetur og tók 8 fráköst. Hann á að baki 38 A-landsleiki og lék með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Berlín 2015 en var ekki í landsliðshópnum á EM í Finnlandi í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert