Markkanen mætir Íslendingum

Lauri Markkanen.
Lauri Markkanen. AFP

Finnska körfuboltasambandið tilkynnti í gær að þeirra stærsta stjarna, Lauri Markkanen, mun leika með finnska landsliðinu gegn Íslendingum í Helsinki í undankeppni HM í júní. 

Markkanen hefur misst af fjórum fyrstu leikjum Finna í keppninni þar sem hann færi ekki leyfi frá Chicago Bulls til að spila landsleiki yfir veturinn. Hann var því ekki með þegar Ísland lagði Finnland að velli í febrúar í Laugardalnum. Öðru máli gegnir um leiki í júní en þá getur félagið ekki hindrað þátttöku hans. 

Markkanen hefur staðið sig virkilega vel á sínu fyrsta tímabili í NBA í vetur og þykir vera í hópi bestu nýliða deildarinnar í vetur. Er hann í mjög stóru hlutverki hjá Chicago sem er í uppbyggingarferli og skoraði 15 stig að meðaltali í leik og tók 7 fráköst að jafnaði. Hefur frammistaða hans komið í rökréttu framhaldi af góðri frammistöðu í bandaríska háskólaboltanum en auk þess sló Markkanen hressilega í gegn á EM í Helsinki í september þar sem leikmenn stórliðanna Frakklands og Grikklands réðu ekkert við hann. 

Riðill þjóðanna í undankeppni HM er galopinn. Ísland hefur unnið Finna og Tékka heima en tapað fyrir Búlgörum heima og Tékkum ytra. Þrjú lið fara áfram í milliriðil og taka með sér stigin þangað. 

mbl.is