Næstur á eftir Pétri?

Tryggvi Snær Hlinason og Jón Arnór Stefánsson. Sá síðarnefndi kynntist …
Tryggvi Snær Hlinason og Jón Arnór Stefánsson. Sá síðarnefndi kynntist lífinu hjá NBA-liði á einu keppnistímabili sem ungur leikmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fari svo að Tryggvi Snær Hlinason taki þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfuknattleik í sumar verður hann annar Íslendingurinn í sögunni til að fara í það.

ESPN skýrði frá því í gær að Tryggvi myndi fara í nýliðavalið í sumar og hann staðfesti í samtali við mbl.is í gær að nafn hans hefði verið sett á lista fyrir valið.

„Nafnið mitt er komið inn í pottinn og með þessu erum við að reyna að fá athygli frá NBA-liðunum. Það má kannski orða þetta þannig að maður sé að dýfa tánni ofan í laugina,“ sagði Tryggvi við mbl.is í gær.

Pétur Guðmundsson hefur til þessa farið einn Íslendinga í nýliðavalið en það gerði hann árið 1981. Pétur var þá valinn af Portland Trail Blazers í þriðju umferð. Í framhaldi af því lék hann eitt tímabil með Portland og síðar með bæði Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs í deildinni.

Jón Arnór Stefánsson var í leikmannahópi Dallas Mavericks tímabilið 2003-2004 en fór þangað í gegnum umboðsmann og náði ekkert að spila með liðinu í deildinni.

Nýliðavalið fer fram 21. júní í Barclays Center í Brooklyn í New York. Þar velja NBA-liðin, sem eru 30 talsins, alls 60 leikmenn úr röðum þeirra sem koma til greina.

Í gær höfðu 118 leikmenn úr bandarískum háskólum og 11 erlendir leikmenn víðsvegar að, þar á meðal Tryggvi, verið skráðir á listann yfir þá sem hafa tilkynnt sig í nýliðavalið.

Tryggvi Snær Hlinason og Pétur Guðmundsson stilltu sér í myndatöku …
Tryggvi Snær Hlinason og Pétur Guðmundsson stilltu sér í myndatöku hjá þriðja miðherjanum, Skapta Hallgrímssyni, fyrir nokkrum árum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert