„Barátta, vörn og leikgleði“

Sigrún Björk Ólafsdóttir sækir að körfunni fyrir Hauka á Ásvöllum …
Sigrún Björk Ólafsdóttir sækir að körfunni fyrir Hauka á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar burstuðu Val í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, 85:68, á Ásvöllum í kvöld. Hin 16 ára Sigrún Björg Ólafsdóttir spilaði vel fyrir deildarmeistara Hauka og sat fyrir svörum mbl.is að leikslokum.

Hvað skilaði svo afgerandi sigri hér í kvöld?

„Barátta, vörn og leikgleði. Við spiluðum vel saman allar. Uppleggið var að leggja áherslu á vörnina og stoppa þær, við gerðum það í dag, vörnin var góð.“

Sigrún spilaði í rúmar 30 mínútur í kvöld, skoraði 10 stig, átti fjögur fráköst og þrjár stoðsendingar og er það töluvert yfir hennar meðaltali í vetur. Hún hrósaði Helenu Sverrisdóttur, liðsfélaga sínum, upp í hástert og sagði að lokum einvígið langt frá því að vera búið.

„Það er þægilegt að spila með Helenu, hún sér völlinn rosalega vel og það hjálpar mér, það gekk vel í kvöld. Nú höldum við áfram að undirbúa okkur eins og við höfum fyrir alla leiki og mætum tilbúnar á laugardaginn í næsta leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert