„Við vorum ragar í sókninni“

Darri Atlason, þjálfari Vals.
Darri Atlason, þjálfari Vals. mbl.is//Hari

Valsarar töpuðu illa gegn Haukum, 85:68, á Ásvöllum í kvöld í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik. Reginmunurinn á liðunum var skotnýting en Völsurum gekk afar illa að skora og segir Darri Atlason, þjálfari liðsins, það vera verkefni fyrir næsta leik að laga hana.

„Það gekk rosalega illa í sókn og við náum aldrei að finna þessa leið til að skora sem við getum svo leitað til aftur,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leikinn.

„Það er rosalega erfitt að treysta á að eitthvað gerist. Við erum ekki að ná að búa til nógu góð skot og þess vegna þurfum við fleiri skot til að skora. Við þurfum að fara yfir þetta á morgun.“

Hvað þurfa Valsarar að gera til að bæta sig fyrir næsta leik á laugardaginn kemur?

„Við þurfum að reyna finna einhverjar glufur sem við getum nýtt betur og tekið þar af leiðandi meira af skarið. Við þurfum að finna einhverja veikleika á Hauka vörninni.“

„Það var kannski verið að ýta okkur út úr einhverjum aðgerðum í sókn en mér fannst við frekar vera ragar í sóknarleiknum. Við tökum 27 fráköst en 30% skotnýtingu, það er ótrúlegt og hlýtur að þýða að þú ert að grípa hann oft, nálægt körfunni. Nú þurfum við að horfa á leikinn aftur og pæla í þessu á morgun,“ sagði Darri að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert