Golden State og New Orleans í góðum málum

Kevin Durant og David West hafa hér góðar gætur á …
Kevin Durant og David West hafa hér góðar gætur á LaMarcus Aldridge. AFP

Golden State Warriors og New Orleans Pelicans eru 3:0 yfir í sínum rimmum í 1. umferð úrslitakeppninnar í NBA-körfuboltanum eftir leiki næturinnar. Philadelphia 76ers náði aftur frumkvæðinu gegn Miami Heat. 

Golden State er ríkjandi meistari og nældi í útisigur gegn San Antonio Spurs í Texas í nótt 110:97. Stephen Curry er enn fjarverandi og Kevin Durant meiddist á ökkla en tjáði fjölmiðlamönnum að hann teldi meiðslin ekki vera alvarleg. Hann gerði 26 stig í leiknum. 

Einnig er afskaplega góður taktur í leik New Orleans sem sigraði Portland Trail Blazers á heimavelli 119:102 og hafði áður unnið tvo fyrstu leikina á útivelli í Oregon. Nikola Mirotic sem lék með Spánverjum gegn Íslendingum á EM í Berlín var stigahæstur með 30 stig og tók 8 fráköst. Antony Davis skilaði 28 stigum og 11 fráköstum fyrir New Orleans. 

Öllu meiri spenna er hjá Philadelphia og Miami en liðin unnu sitt hvorn leikinn í Philadelphia. Miami stöðvaði þá sigurgöngu Philadelphia-liðsins sem unnið hafði sautján leiki í röð. Gamla stórveldið svaraði hins vegar fyrir sig á Flórída í nótt og hafði betur 128:108 og er ef til vill komið á sigurbraut á ný. Evrópubúarnir voru drjúgir eins og áður hjá Philadelphia en Króatinn Dario Saric og Ítalinn Marco Belinelli gerðu 21 stig hvor. Joel Embiid var þó stigahæstur með 23 stig. Slóvenski Evrópumeistarinn Goran Dragic var með 23 stig fyrir Miami en Dwyane Wade skoraði aðeins 8 stig og þarf að gera betur. 

Nikola Mirotic er vel stemmdur hjá New Orleans.
Nikola Mirotic er vel stemmdur hjá New Orleans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert