Það þarf að vinna þrjá leiki

Kristófer Acox, til vinstri, í leiknum í kvöld.
Kristófer Acox, til vinstri, í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Hjalti Árnason

„Við spiluðum mjög góðan leik í kvöld“ sagði KR-ingurinn Kristófer Acox eftir öruggan 75:54 sigur KR á Tindastól í fyrsta leiknum í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. „Allir sem komu við sögu í leiknum gerðu eitthvað og stóðu sig í varnarleiknum. Það skilaði sér heldur betur í dag og þetta er eitthvað sem við verðum að byggja ofaná fyrir næstkomandi leiki.“

Þið tókuð Haukana í síðustu umferð með því að brydda upp á sérstöku varnarafbrigði. Er Finnir Freyr meistari í að skipuleggja varnarleik?

„Hann er mjög mikill varnarþjálfari og leggur mikið upp úr því að við spilum góða vörn. Hann var með frábært skipulag fyrir Haukaleikina og eins hérna í dag og þetta er að skila sér. Við verðum að fylgja planinu hans og þá erum við alltaf í góðum málum.“

Þið hittuð ekki vel framan af leik en á meðan vörnin er svona sterk þá þurfið þið svo sem ekki að skora mörg stig.

„Líklega var smá skrekkur í okkur í byrjun.Menn voru eitthvað spenntir og stressaðir. Við vissum að skotin myndu fara að detta og þá yrði þetta brött brekka fyrir Tindastól.“

Þetta er frábær byrjun hjá ykkur í þessu einvígi, að koma á útivöll og landa sigri. Það er þó ekki á vísan að róa með framhaldið þótt staða ykkar sé orðin góð.

„Aðalatriðið er að það þarf að vinna þrjá leiki. Við vissum að ef við ætluðum okkur titilinn þá þyrftum við að vinna einn leik hérna. Það má samt ekkert slaka á á móti svona sterku og góðu liði. Við sýnum þeim mjög mikla virðingu og verðum að vera enn betri á sunnudaginn“ sagði Kristófer að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert